141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[13:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, því er fljótsvarað, það er fullkomlega eðlilegt að þingið bregðist við. Ég hefði hins vegar talið eðlilegra að þingið væri búið að velta fyrir sér hvar það þyrfti að bregðast við en mundi ekki bíða með það vegna óvissunnar sem mundi leiða til dómsmála og síðan yrði ríkið hreinlega skikkað til aðgerða. Við þekkjum það reyndar frá fyrri tíð jafnvel þó að við höfum verið með mun minni breytingar. Reyndar voru gerðar verulegar breytingar á mannréttindakaflanum 1995, en þá vorum við bara með einn kafla undir. Hér erum við hins vegar með alla stjórnarskrána þannig að ég tel mjög mikilvægt að vanda til verka.

Ég fékk ekki svar hjá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um hvort nefndin hefði gert sér í hugarlund hversu mörgum lögum þyrfti að breyta eða hvaða ný lög þyrfti að setja. Ég held að það væri grundvöllur og vitna þar til sérfræðingahópsins sem fór yfir þetta og benti á að þetta væri mikilvægt. Það er líka í handbókinni um hvernig lög skuli sett.

Það sem er rétt er að það er erfitt að taka umræðu hérna um (Forseti hringir.) og koma með nýjar tillögur þegar allt virðist vera undir og allir vita að (Forseti hringir.) tíminn er farinn.