141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að náttúruauðlindir ætti ekki að selja eða framselja. Staðreyndin er auðvitað sú að það stenst allt sem ég fór yfir um framsal yfir skipulaginu á auðlindunum og yfirráðunum yfir þeim. Það er ekki lokað fyrir það þegar 34. gr. er borin saman við 111. gr., framsalsákvæðið, það stenst fyllilega að það er ekki þannig að það sé algjörlega óyggjandi og tryggt að ekki sé hægt að framselja yfirráðin sjálf, skipulagið og yfirráðin yfir auðlindunum. Það er ekki tryggt og fræðimenn sem komu fyrir nefndina fjölluðu um að það (Gripið fram í.) þyrfti að skoða samspil þeirra tveggja greina miklu betur.

Það hefði verið gert. Hv. þingmaður kemur inn á framsalið sem meiri hluti nefndarinnar kom með breytingartillögur við, almennt um framsal ríkisvalds sem m.a. er gerð grein fyrir í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Sá sem hér stendur hefur lesið það og dylgjur og bull frá hv. þingmanni um það (Gripið fram í.) eiga ekki við rök að styðjast.

Það sem þarf að skoða miklu betur er fullveldisframsalið og sá kafli sem er settur inn af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þarfnast meiri og dýpri skoðunar. Fullveldisframsalið almennt þarfnast miklu meiri skoðunar en er sett fram hér. Það veit hv. þingmaður og þess vegna er þessi æsingur í henni í umræðunni í dag.