141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu, ágæta ræðu þar sem hún fór yfir hvað stjórnarskrá raunverulega er og hvaða hlutverki hún á að þjóna. Ég vil benda á að stjórnarskrá er fyrst og fremst lög. Stjórnarskráin er æðstu lög landsins og öll önnur lagasetning byggir á henni. Stjórnarskráin er jafnframt samfélagssáttmáli þjóðarinnar, ég tek undir það, og almennar leikreglur koma fram í stjórnarskrá. Stjórnarskrá gengur út á að allir séu jafnir, óháð flokkadráttum. Þannig má að vissu leyti tala um að stjórnarskráin gegni því hlutverki. Þess vegna er svo mikilvægt að stjórnarskráin sé fyrir okkur öll, að við öll getum fundið samsvörun í þessu æðsta plaggi þjóðarinnar.

Stjórnarskráin byggir síðan á þeim lögum og reglum sem dómstólar dæma eftir og stundum hafa verið höfðuð mál fyrir dómstólum sem byggja á stjórnarskipunarrétti og á stjórnarskránni beint, því að stjórnarskráin á að vernda rétt borgaranna gegn ofríki ríkisvaldsins.

Að þessu sögðu langar mig að spyrja þingmanninn hvort henni finnist ekki óeðlilegt í hvaða óefni málin eru komin. Það er í raun vikið frá því grunnstefi stjórnarskrárinnar að þetta séu æðstu lög landsins og grundvallarsáttmáli okkar allra því að svo virðist vera sem að nú eigi að þröngva í gegnum þingið nýrri stjórnarskrá sem alls ekki er byggð á þeim grunni, á þessum tveimur grunnstoðum. Sérfræðingar í stjórnarskipunarrétti og einnig Feneyjanefndin hafa talið að það vanti alla lögfræði inn í plaggið og svo er hitt að þetta er stjórnarskrá vinstri manna. (Forseti hringir.) Getur þingmaðurinn sagt álit sitt á þessari skoðun minni?