141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:47]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hina fjórðu í þessari umræðu eins og hún tiltók.

Ég hefði vænst þess og beið eiginlega eftir því að fá að heyra frekar frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um áherslur hennar og innlegg varðandi þau atriði sem hún nefndi sérstaklega að hún væri tilbúin að fara fram með afgreiðslu á í stjórnarskrármálinu. Hún talaði um það að hún liti á sig sem ákveðinn bjargvætt í málinu, það væri svo mikilvægt að ná ákveðnum málum fram. Við erum sammála um það. Það er nefnilega mikilvægt að ná slíkum ákvæðum fram. Ég hefði viljað ná þeim öllum fram.

Ég heyri að hv. þingmaður vill ná ákveðnum mikilvægum atriðum fram. Þá erum við að minnsta kosti sammála um að þar eru lykilatriði sem við viljum bæði ná fram. Ég hefði því viljað heyra frekar — vegna þess að það kemur ekki fram í nefndaráliti hennar — hvernig hún sér fyrir sér þau efnisatriði orðuð í nýrri stjórnarskrá, nema ég megi skilja það þannig að hún taki undir þau atriði eins og þau birtast í stjórnarskránni, í þeim tillögum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram fyrir 2. umr.

Ég vil líka segja að ég næ ekki alveg utan um þá miklu umræðu sem hv. þingmaður setur alltaf um form umræðunnar. Fundið er að því að hér sé kolómögulegt upplegg varðandi stjórnarskrármálið, búið sé að leggja fram tugi ef ekki hundruð breytingartillagna, nefndin sé að vinna með málið og verið sé að skrifa nýja texta og uppfæra greinargerðir — sem hlýtur þá að vera í anda þess sem lagt er upp með, að hin efnislega umræða í þingnefndunum, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og í þingsal skili okkur þeim besta texta sem getur orðið. Getum við ekki verið sammála um það, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, að umræðan er til þess að ná niðurstöðu sem við getum sameinast um?