141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Geirssyni fyrir andsvarið.

Þarna skarast akkúrat skoðanir okkar vegna þess að þingmaðurinn telur það málinu mjög til bóta að það séu að verða komnar 100 breytingartillögur að þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga á milli 1. og 2. umr., 100 breytingartillögur. Og verið er að boða að einhvers konar ný greinargerð komi í framhaldsnefndaráliti. Það er verið að ræða hér um stjórnarskrána. Svona á ekki að vinna málið.

Ef verið er að fara með frumvarp á einhverju ákveðnu sviði, í þessu tilfelli er það á sviði stjórnskipunar því að þetta er stjórnarskráin, þá eiga okkar færustu sérfræðingar á því réttarsviði að gera tillögur um þær breytingar sem á að fara í, því að það eru fyrst og fremst þeir sérfræðingar sem hafa til þess þekkingu að geta skrifað lagatexta og greinargerðir með þeim tillögum sem lagðar eru fram. Ekki þannig að þingið sé að fást sífellt við síbreytilegan texta sem ruglast fram og til baka.

Sem dæmi má nefna að frumvarpið kemur inn í þingið og það rætt, það er þá nýbúið að fara í lögfræðilestur, og það er rætt þannig í 1. umr. Svo kemur meiri hluti nefndarinnar og breytir tillögum til baka alveg aftur í tillögur stjórnlagaráðs og þar með var öll lögfræðitextavinnan, hið svokallaða lagatæknilega álag, farin fyrir bí. Eins var með Feneyjanefndina, svona fær Feneyjanefndin plaggið — þetta er eins og þegar maður var í skóla, það var alltaf dagsett svo maður gæti breytt planinu — en svo þegar álit kemur frá Feneyjanefndinni þá er búið að gera 45 breytingartillögur í viðbót. Það er ekki hægt að vinna stjórnarskrá með þeim hætti.