141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:51]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talar um 100 breytingartillögur. Það væri þá enn betra væntanlega í hennar huga ef þær væru svo margar. Reyndin er sú að þær eru í kringum 50.

Hvaða breytingartillögur er um að ræða? Þetta eru breytingartillögur sem eru lagðar fram í framhaldi af þeim umsögnum og álitum sem hafa borist frá þeim aðilum sem hafa verið að fjalla um málið og eru okkar færustu sérfræðingar hver á sínu sviði. Það mátti skilja á máli hv. þingmanns að þetta væru einhverjar breytingartillögur sem dyttu bara af himnum ofan innan nefndarinnar og væru ekki í neinu samhengi við þá umræðu sem hefur verið um málið. Þvert á móti. Það er einmitt verið að bregðast við þeim athugasemdum og ábendingum sem hafa komið fram í þingnefndunum og komu inn á borð okkar í álitum og umsögnum. Þess vegna koma breytingartillögurnar fram.

Hvers vegna biðum við með það að taka stjórnlagaþáttinn inn í þær breytingartillögur núna fyrir 2. umr.? Vegna þess að verið var að senda til sérstakrar skoðunar hjá Feneyjanefndinni kafla varðandi álagspróf á stjórnkerfið. Nú höfum við fengið viðbrögð við því. Það var einmitt það sem var hugsað milli 2. og 3. umr. þegar nefndin fengi tækifæri til að taka málið inn aftur til sín og jafnvel í umræðunni sjálfri, og eins og við höfum verið að funda síðustu daga, þá höfum við tækifæri til að fara yfir þau atriði sem þar er verið að benda á til að bregðast við þeim athugasemdum og ábendingum. Þetta eru auðvitað eðlileg, góð og vönduð vinnubrögð.

Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður getur verið að finna að því formi fram og til baka og að það sé ægilegt við þetta ægilega frumvarp að breytingar skuli verða gerðar á því. Eru þetta ekki breytingar í anda þess sem bent hefur verið á að betur mætti fara? Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því?