141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

uppbygging á Bakka.

[13:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að beina fyrirspurn til hæstv. atvinnuvegaráðherra vegna þess samkomulags sem undirritað var síðastliðinn föstudag um kísilver á Bakka. Ég vil af því tilefni óska Húsvíkingum og Norðlendingum öllum innilega til hamingju með þá undirritun. Vonandi fara þeir að sjá til lands eftir þrotlausa baráttu undanfarin ár fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Í fjölmiðlum kom fram að á næstunni muni hæstv. ráðherra leggja fram tvö frumvörp á Alþingi; annað er um heimild til að gera fjárfestingarsamning og hitt er lagt fram til að afla heimilda fyrir ríkið til að kosta uppbyggingu tiltekinna innviða sem eru nauðsynleg forsenda verkefnisins, einkum vegtengingu milli hafnarinnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka og stækkun Húsavíkurhafnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af því tilefni um hvaða framkvæmdir sé þarna nákvæmlega að ræða. Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra hver fjárhagsleg skuldbinding ríkisins sé og hvort gert hafi verið ráð fyrir henni í fjárlögum yfirstandandi árs. Síðan vildi ég spyrja hæstv. ráðherra af hverju gera þarf fjárfestingarsamning eftir að nýju lögin sem hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, mælti fyrir og beitti sér fyrir árið 2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.