141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

uppbygging á Bakka.

[13:35]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vona að þau frumvörp sem þarna var minnst á geti innan örfárra sólarhringa hið mesta svarað fyrir sig sjálf. Það er auðvitað langbest að ræða þau þegar þau koma til þings með öllum fylgiskjölum og gögnum. Þetta er viðamikill pakki sem er langbest að skoða í samhengi þegar þau koma fram og að því unnið að það gerist á allra næstu dögum.

Um var að ræða tvær yfirlýsingar, annars vegar fjórhliða viljayfirlýsingu þýska fyrirtækisins PCC, ríkisins, Norðurþings og hafnarsjóðs Norðurþings um tiltekinn undirbúning og ákveðna hluti sem þurfa að vera til staðar og allir aðilar fallast á að séu fullnægjandi til þess að hægt verði að ráðast í verkefnið. Hins vegar er um að ræða þríhliða samning ríkisins, sveitarfélagsins og hafnarsjóðs Norðurþings sem tengist uppbyggingu innviða sem alfarið eru á vegum þessara aðila og eru framkvæmdaraðilanum eða fjárfestinum óviðkomandi. Þar koma við sögu vegtengingar frá hafnarsvæðinu út á verksmiðjulóðina, einnig þær skuldbindingar sem sveitarfélagið og hafnarsjóður taka á sig og viss stuðningur ríkisins þar við, ekki í formi fjárveitinga þó heldur í formi þess að veitt verði víkjandi lán til að greiða fyrir þeim framkvæmdum. Þessu tengjast líka tilteknar undirbúningsframkvæmdir á verksmiðjulóðarsvæðinu. Ítarleg gögn um allar þessar skuldbindingar og nauðsynlegu fjárfestingar í innviðum munu fylgja málinu þegar það kemur hér fram.

Varðandi rammalögin um nýfjárfestingar eða ívilnanir eru á grundvelli þeirra alltaf gerðir samningar. Það þarf því samninga um hvert og eitt mál innan ramma þess sem löggjöfin heimilar eða fara eftir atvikum fram á heimildir til þess að víkja eitthvað frá þeim ramma eins og gæti átt við í a.m.k. einu eða tveimur tilvikum í þessu efni, en það skýrist allt saman (Forseti hringir.) þegar málið kemur fram.