141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

uppbygging á Bakka.

[13:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ítreka þá spurningu sem hann svaraði ekki: Hversu mikil er fjárhagsleg skuldbinding ríkisins í þessu efni? Fram kom í fjárlagaumræðunni fyrir þetta ár samkvæmt upplýsingum frá heimamönnum að þarna væri um að ræða fjárútlát ríkisins upp á 2,6 milljarða. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra staðfesti það og spyr hvort gert hafi verið ráð fyrir því.

Síðan vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra um hvort við megum ekki í framhaldinu vænta fleiri góðra frétta af atvinnuuppbyggingu, þá er ég að hugsa um Helguvíkurhöfn, hvort þessi undirritun og ákvörðun þýði ekki að við Suðurnesjamenn megum vænta sambærilegra fregna um aðkomu ríkisvaldsins (Forseti hringir.) að hafnarframkvæmdum. Þar er reyndar ekki um að ræða uppbyggingu við lóðir eða vegtengingar. (Forseti hringir.) Sveitarfélagið hefur tekið það á sig en þar stendur eftir óklárað mál milli ríkisins og sveitarfélagsins varðandi fjármuni til hafnarinnar.