141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

orkufrekur iðnaður á Bakka.

[13:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessu sambandi finnst mér mikilvægt að benda á, eins og raunar kom fram í fyrra svari mínu, að eðlilegt er að skoða hvert tilfelli fyrir sig og skoða til að mynda þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í hverju sinni. Og af því að við erum að tala um álver getum við tengt það við framkvæmdirnar sem farið var í við umdeilda Kárahnjúkavirkjun, sem samkvæmt drögum að rammaáætlun hefði lent mjög neðarlega einmitt vegna þeirra stóru og óafturkræfu spjalla sem unnin voru á náttúru. Mér finnst því eðlilegt þegar skoða á svona tækifæri í atvinnuuppbyggingu að stjórnmálamenn og aðrir taki tillit til margra þátta. Það þarf að skoða hvaða áhrif þetta hefur á náttúrufar, hver umhverfisáhrifin eru og hver virðisaukinn er.

Ástæða þess að ég nefndi álið var að virðisaukinn er ekki endilega sérstaklega mikill þegar flytja þarf hráefni langa leið, það verða til tiltölulega fá störf fyrir þá orku sem lögð er í viðkomandi iðnað. Mér finnst því eðlilegt að við ræðum hvert og eitt tilfelli fyrir sig. Það er ekki hægt að túlka það sem svo að (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi núna skyndilega tekið iðnað í sátt. Þetta hefur ávallt verið hluti af okkar stefnu.