141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

aðgangur fjárlaganefndar að gögnum.

[13:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það vakti athygli mína ágæt grein eftir hæstv. fjármálaráðherra í Fréttablaðinu í síðustu viku, nánar tiltekið á fimmtudaginn, um opin gögn og upplýsta þjóð. Í öllum meginatriðum er ég innilega sammála þeim áherslum sem þar koma fram. Hún vakti þó óneitanlega upp ákveðnar spurningar í huga mér vegna þeirrar vinnu sem við höfum lagt í í fjárlaganefnd Alþingis á undanförnum árum og vegna samskipta fjárlaganefndar við hæstv. fjármálaráðherra, núverandi og fyrrverandi. Ég minni á í því sambandi að í júní 2010 samþykkti fjárlaganefnd samhljóða að bera upp þingsályktunartillögu um aðgengi fjárlaganefndar að gögnum. Sú þingsályktunartillaga var samþykkt samhljóða með 45 atkvæðum. Ekkert bólar á efndum á fullnustu þeirrar þingsályktunar um aðgengi fjárlaganefndar að gögnum.

Sömuleiðis minni ég á þá baráttu sem fjárlaganefnd stóð í um aðgengi að gögnum til að geta rækt skyldur sínar við fjáraukalagagerð síðasta árs. Við höfum ekki einu sinni fengið svar við því efni eftir hið makalausa svar sem við fengum frá fjármálaráðuneytinu 19 dögum of seint, með útúrsnúningum.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvað sé eiginlega í veginum fyrir því að fjármálaráðuneytið beiti sér fyrst af öllu fyrir því að þeir sem hafa lögbundnum skyldum að gegna varðandi eftirlitshlutverk með störfum framkvæmdarvaldsins að því er lýtur að fjárlögum fái slíkt aðgengi og að þessum sjálfsögðu hlutum sé kippt í liðinn áður en menn fara að ræða (Forseti hringir.) frekari útfærslur í þeim efnum?