141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

aðgangur fjárlaganefndar að gögnum.

[13:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður sé kannski að misskilja eitthvað varðandi það sem þessi nefnd er að gera. Þetta er ekki bara grein sem ég skrifaði, þetta er vinna sem er í gangi í fjármálaráðuneytinu við að taka ákvörðun um það í hvaða skrefum við ætlum að birta upplýsingar um fjárhagsleg málefni ríkisins. Þetta eru gögn sem ég tel að eigi að vera öllum opin og mér finnst ekki að það eigi endilega að byrja á því að opna þau bara fyrir þingmönnum og síðan fyrir þjóðinni. Við ætlum að opna þetta fyrir öllum. Ef einhver hefur áhuga á að vita hvað við erum að eyða miklu í ákveðin atriði, t.d. við hvaða fyrirtæki er verið er að versla, hvernig ráðherra fer með svokallað skúffufé sitt o.s.frv., er markmiðið að menn geti farið á netið og fylgst með því hvernig fénu er varið

Þetta er það sem við erum að tala um. Það á ekki að byrja á þingmönnum, við erum ekkert að fara í þann leiðangur. Við ætlum að opna þetta fyrir þjóðinni þannig að hún viti hvernig við verjum skattfénu.