141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

grásleppuveiði.

[13:59]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er reyndar rétt að taka fram varðandi netareglurnar að þær eru núna þannig að það er 200 neta hámark á bát óháð fjölda í áhöfn. Það gekk mjög brösuglega að fylgja eftir eldri reglum um mismikinn fjölda eftir fjölda skráðra manna í áhöfnum sem ekki reyndust alltaf um borð o.s.frv., þannig að eindregnar óskir voru frá eftirlitsaðilum um að hafa regluna einfalda og skýra og hún er svona. Með þeim rökum má að einhverju leyti líta svo á að hægt sé að hafa dagafjöldann ívið meiri vegna þess að það eru þó ekki bátar á sjó með leyfi fyrir 300 netum.

Það er ljóst að vandasamt er að byggja stofnstærðarmat á óbeinum mælingum eða vísbendingum af því tagi sem menn hafa notast við. Þegar á reynir eru það aflabrögðin sjálf sem segja ákveðna sögu á hverju ári og þau eru mjög sveiflukennd eins og allir vita, það er svolítið erfitt að átta sig á því. Þetta er nokkuð kenjótt skepna, grásleppan, satt best að segja. En svona standa málin og það eina sem ég get fullyrt á þessu stigi er (Forseti hringir.) að þetta verður tekið til endurskoðunar um leið og nýjar upplýsingar liggja fyrir, sem vonandi verður um 20. mars.