141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

forkaupsréttur og framsal í sjávarútvegi.

[14:02]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það mætti margt segja um þessi framsalsmál og forkaupsréttarákvæði. Það er til viðbótar nú inni í lögum tiltekið öryggisákvæði sem ríkið getur gripið til, en að vísu aðeins þegar umtalsverður hluti veiðiheimilda er þá að fara burt úr byggðarlagi. Varðandi það tiltekna mál sem hv. þingmaður nefnir fylgjumst við grannt með því og við höfum fengið send gögn og ýmsar upplýsingar um það mál en getum að sjálfsögðu ekki blandað okkur og blöndum okkur ekki í mál sem er fyrir dómstólum.

Við fylgjumst hins vegar grannt með því og ég vil af minni hálfu segja að ég hef lengi verið áhugamaður um að skapa meiri byggðafestu í þetta kerfi. Það skal ekki standa á mér að skoða leiðir í þeim efnum. Hvort hægt er að gera forkaupsréttinn þá fortakslausari þannig að engar hjáleiðir finnist fram hjá honum, þ.e. í formi þess að í gegnum eignabreytingar á fyrirtækjum færist veiðiheimildirnar í burtu en ekki sé um beina sölu þeirra sem slíkra að ræða. Það er það sem hér liggur undir.

Þá þurfa menn að fara yfir það. Eru tiltækar leiðir til að stöðva með einhverjum hætti óhóflega röskun í formi flutnings veiðiheimilda? Hvaða úrræði eru þá best í þeim efnum? Eiga það að vera takmarkanir í lögum eða eiga það að vera virk og bein forkaupsréttarákvæði? Þá þarf auðvitað að vera afl til staðar til að neyta réttarins. Geta minni sveitarfélög það? Ég veit að viðkomandi sveitarfélag hefur aflið til þess en í öðrum tilvikum er það kannski takmarkað. Á þá ríkið að vera þar á bak við? Það eru ýmis álitamál af þessu tagi sem er rétt að skoða. En svarið er það að við fylgjumst grannt með framvindu þessa máls.