141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[14:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um hvernig haldið er á málum í atvinnuveganefnd. Fulltrúi okkar framsóknarmanna í atvinnuveganefnd, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur lýst þessum fundum ágætlega fyrir okkur í þingflokknum og það verður að segjast eins og er að það er óboðlegt hvernig haldið er á málum þar. Það er óboðlegt að kalla fyrir nefndina aðila sem eiga eftir að skila umsögnum. Það hlýtur að vera skýlaus krafa allra þingmanna að þeir aðilar komi aftur fyrir nefndina þegar þeir hafa skilað inn umsögnum sínum og fái þann tíma sem þarf til að vinna þetta með þeim hætti sem þeir telja ásættanlegt.

Það getur ekki verið að við ætlum enn og aftur að láta það spyrjast um okkur hér á Alþingi að umræðan fari snúast um það hvernig haldið er á málum, hvernig vinnubrögðin eru. Svo þarf vitanlega að gera eins og þarf að gera við öll stórmál og veigamikil eins og þetta að fá sérfræðiúttekt á málinu. Það er ekki hægt annað en gera það þegar málið er svo stórt og þannig vaxið sem hér er um að ræða.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa skorað á forseta að reyna að grípa inn í með einhverjum hætti.