141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[14:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með þeim þingmönnum sem talað hafa á undan mér. Það er grafalvarlegt mál hvernig núverandi formaður atvinnuveganefndar heldur á málum í nefndinni. Ég hef verið hér í fjögur ár og hef aldrei á þeim fjórum árum orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum í nokkurri nefnd sem ég hef verið í. Þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál. Þetta snýst um að afhenda útgerðinni samningsbundið kvótann til 20 ára fram í tímann. Það er hvorki meira né minna en 5 þús. milljarða kr. ávísun og ekki á að gera úttekt á því hvaða efnahagsleg áhrif það hefur á íslenskt samfélag, það á bara ekki að gera það af því að það er ekki tími til þess, það þarf að drífa sig í að klára málið.

Það er algerlega forkastanlegt og ábyrgðarlaust með hvaða hætti stjórn nefndarinnar heldur á málinu. Ég tek undir hvatningu til hæstv. forseta að hún láti sig málið varða og kalli stjórn nefndarinnar á sinn fund og fari yfir þessi vinnubrögð því að þetta er grafalvarlegt mál.