141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

lyfjalög.

460. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum (lyfjablandað fóður). Nefndarálitið er frá meiri hluta velferðarnefndar. Í upphafi eru nefndir þeir sem komu fyrir nefndina, en efni frumvarpsins er að gerðar eru breytingar á lyfjalögum með síðari breytingum og svo veitt lagastoð fyrir innleiðingu tilskipunar Evrópuráðsins 90/167/EBE frá 26. mars 1990 um skilyrði sem hafa áhrif á blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs fyrir dýr.

Með frumvarpinu er lagt til að Lyfjastofnun veiti leyfi til innflutnings og framleiðslu lyfjablandaðs fóðurs og hafi eftirlit með þeim aðilum sem fengið hafa slíkt leyfi. Til að standa straum af kostnaði við eftirlitið er lagt til að innheimt verði sérstakt eftirlitsgjald af innflytjendum og framleiðendum lyfjablandaðs fóðurs sem nemi 0,3% af heildarfjárhæð lyfjainnkaupa til íblöndunar í fóður, en eftirlitsgjald verði þó aldrei lægra en 35 þús. kr. á ári á verðlagi janúarmánaðar 1999.

Í frumvarpinu er lagt til að nýr kafli bætist við lyfjalög þar sem fjallað verði um innflutning og framleiðslu lyfjablandaðs fóðurs.

Hæstv. forseti. Í athugasemdum við frumvarpið kom fram að starfsemi sem frumvarpinu er ætlað að ná til, þ.e. innflutningur og framleiðsla lyfjablandaðs fóðurs, er ekki stunduð á Íslandi. Þá er ekki vitað til þess að slík starfsemi sé áætluð í náinni framtíð. Hæstv. forseti, þetta er mikilvægt að hafa í huga. Engu að síður er nauðsynlegt að tilskipunin verði innleidd á formlegan og löglegan hátt í landsrétt.

Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 26. október 2007 en Ísland fékk aðlögunartíma til 1. nóvember 2011. Sá aðlögunartími er nú liðinn en fyrir nefnd kom fram að Eftirlitsstofnun EFTA hefði gert athugasemdir við það við íslensk stjórnvöld að ákvæði tilskipunarinnar hefði ekki verið innleidd í íslenskan rétt og dómsmál var höfðað fyrir EFTA-dómstólnum 28. nóvember 2012. Því er mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt á yfirstandandi þingi.

Efni frumvarpsins tekur til lyfjagjafar dýra. Eins og hér kom fram er lyfjablöndun í fóður ekki stunduð hér á landi og mjög strangt eftirlit með því hvernig lyfjagjöf til dýra er háttað og héraðsdýralæknar hafa meðal annars eftirlit með þeirri lyfjagjöf.

Ástæðan fyrir því að þetta frumvarp fellur undir Lyfjastofnun er sú að Lyfjastofnun hefur eftirlit með öllum lyfjum, sama hvort þau eru til manna eða dýra.

Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega yfir nefndarálitið sem liggur frammi, en það er nokkuð nauðsynlegt að hafa þessar reglur og alla lagaumgjörð með réttu formi þannig að kæmi til þess að óskað væri eftir því að hér yrði tekið í notkun við einhverjar aðstæður lyfjablandað fóður væri öll lagaumgjörðin til staðar.

Hér er breytingartillaga sem varðar fjárhæð eftirlitsgjaldsins. Í c-lið 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um fjárhæð eftirlitsgjalds sem þeim sem fengið hafa leyfi til innflutnings eða framleiðslu á lyfjablönduðu fóðri ber að greiða, eins og ég las í upphafi. Lagt er til að gjaldið nemi 0,3% af heildarfjárhæð lyfjainnkaupa til íblöndunar, en muni þó aldrei nema lægri fjárhæð en 35 þúsundum. Í d-lið 1. gr. kemur svo fram að fjárhæðin sé á janúarverðlagi 1999. Í 11. mgr. 3. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, eru ákvæði um eftirlitsgjöld vegna leyfisskyldrar starfsemi á grundvelli laganna. Er þar mælt fyrir um hundraðshluta ýmissa gjalda sem og lágmarksfjárhæðir gjaldanna á ársgrundvelli. Í 12. mgr. 3. gr. kemur síðan fram að fjárhæðir gjalda sem fram koma í 11. mgr. séu á janúarverðlagi 1999 og að þær skuli taka breytingum einu sinni á ári, 15. janúar ár hvert, og miðast við að 70% fylgi launavísitölu og 30% fylgi vísitölu neysluverðs.

Eins og komið hefur fram eru eftirlitsgjöld sem lögð eru á leyfisskylda aðila samkvæmt 3. gr. laganna í formi skatta en ekki þjónustugjalda. Þá er um að ræða markaðar tekjur sem, líkt og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eru almennt óheppilegar og að unnið hafi verið markvisst að því að afmá þær í lögum þannig að ríkistekjur sem mælt er fyrir um í lögum renni í ríkissjóð og ákvarðanir um fjárheimildir verði síðan teknar í fjárlögum hverju sinni.

Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og jafnframt þær athugasemdir sem fram koma í fyrrgreindri umsögn að fullt tilefni sé til að taka þá gjaldtöku sem mælt er fyrir um í lyfjalögunum til endurskoðunar og meta hvaða gjaldtökuheimildir ættu frekar heima í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þá telur meiri hlutinn einnig að taka þurfi til heildstæðrar skoðunar fjármögnun Lyfjastofnunar hvað markaðar tekjur varðar.

Meiri hlutinn telur það ekki til fyrirmyndar að leggja til samþykkt frumvarps til laga sem mælir fyrir um lágmarksfjárhæðir gjaldtökuheimilda á janúarverðlagi ársins 1999, þ.e. 14 ára gömlu verðlagi. Sú lágmarksfjárhæð sem lögð er til í frumvarpinu, þessar 35 þús. kr., er í raun 82 þús. kr. á verðlagi septembermánaðar 2012. Meiri hlutinn óskaði eftir því við velferðarráðuneytið að fjárhæðir þær sem fram koma í 11. mgr. 3. gr. yrðu uppreiknaðar til verðlags desembermánaðar 2012. Með því er skýrleiki laganna aukinn og þau uppfærð til núgildandi verðlags. Meiri hlutinn leggur því til breytingartillögu þess efnis að allar fjárhæðir eftirlitsgjalda 11. mgr. 3. gr. verði uppfærðar til desemberverðlags 2012 og tekur 12. mgr. 3. gr. laganna breytingum því til samræmis.

Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr.

a. Á eftir b-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað „75.000 kr.“ í 1. tölulið, „35.000 kr.“ í 2. tölulið og „7.500 kr.“ í 3. tölulið 11. mgr. komi: 176.000 kr.; 82.000 kr.; og: 17.500 kr.

b. Í stað „35.000 kr.“ í c-lið komi: 82.000 kr.

c. Í stað orðanna „janúarverðlagi 1999“ í d-lið komi: desemberverðlagi 2012.

Unnur Brá Konráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta nefndarálit rita auk þeirrar er hér stendur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, Skúli Helgason, Logi Már Einarsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir.