141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

lyfjalög.

460. mál
[14:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hefur í rauninni ekki áhrif á neina atvinnustarfsemi hér á landi eins og sakir standa. Það er hins vegar hluti af tilskipunum Evrópusambandsins sem við höfum undirgengist og samþykkt að leiða í lög. Í rauninni má segja að afleiðingarnar verði ekki miklar fyrir okkur en ef menn tækju upp þá búskaparhætti sem þetta frumvarp kveður á um, að gefa lyfjablandað fóður, þá mundi auðvitað reyna á gildi þessara laga.

Þetta frumvarp tekur til lyfjagjafar dýra. Það að gefa dýrum lyfjablandað fóður er ein aðferð við að koma lyfi í hóp dýra. Þessi aðferð er þekkt í öðrum löndum. Hún er til dæmis notuð í Bandaríkjunum og víðar. Fyrir nefndinni kom fram að þó svo að svona hjarðmeðhöndlun dýra með lyfjablönduðu fóðri þekktist ekki hér eða í Evrópu þá væri um að ræða eina almenna og mikilvæga undantekningu sem er sú að kjúklingum er iðulega gefið hnýslasóttarlyf í ræktun. Menn verða hins vegar að hafa það í huga að slíkt fóður flokkast ekki undir það sem við köllum í þessu frumvarpi lyfjablandað fóður heldur bætiefni í fóður. Ég tel þess vegna ástæðu til að árétta að slík fóðurgjöf við ræktun kjúklinga mun ekki fara gegn frumvarpinu og verður leyfð eftir sem áður.

Það sem ástæða er til að undirstrika er þetta: Almennt talað snertir þessi löggjöf ekki almenna atvinnustarfsemi á Íslandi. Álitaefni sem mögulega kynni að koma upp væri það sem ég vék að varðandi fóðrun kjúklinga. Það er hins vegar ekki þannig að þetta frumvarp nái yfir það og þess vegna mundi slík ræktun kjúklinga ekki fara gegn frumvarpinu.

Með þessu frumvarpi er lagt til að Lyfjastofnun veiti leyfi til innflutnings og framleiðslu á lyfjablönduðu fóðri og hafi eftirlit með þeim sem hafa fengið slík leyfi. Til að standa undir þessu eftirliti er gert ráð fyrir að innheimt verði sérstakt eftirlitsgjald af bæði innflytjendum og framleiðendum lyfjablandaðs fóðurs og það nemi 0,3% af heildarfjárhæð lyfjainnkaupa til íblöndunar í fóður en verði aldrei lægra en 35 þús. kr. á ári á verðlagi janúarmánaðar 1999. Það er ástæða til að nema staðar við það sem ég nefndi síðast, þ.e. upphæðina. Í frumvarpinu er kveðið á um að þessi upphæð skuli vera 35 þús. kr. og vísað til verðlags í janúarmánuði 1999. Það er rétt sem kom fram í ábendingum ýmissa aðila að það er ákaflega óheppilegt að leggja fram frumvarp í byrjun árs 2013 þar sem stuðst er við verðlag ársins 1999. Það gefur mjög villandi mynd fyrir þá sem við eiga að búa og munu hugsanlega búa við þessa löggjöf ef á hana reynir.

Það er ástæða til að fagna því að meiri hluti nefndarinnar leggur til að fyrrnefnd upphæð verði reiknuð upp til verðlags desembermánaðar síðastliðins. Þá sjáum við að þessar 35 þús. kr. verða 75 þús. kr. sem segir dálitla sögu um þá verðlagsþróun sem átt hefur sér stað. Það þýðir að hér hefur verðbólgan hækkað frá þeim tíma og í raun tvöfaldast ef ég skil rétt það sem hér er verið að leggja til. Það þýðir auðvitað að þessi löggjöf verður miklu gagnsærri en ella.

Það hringja viðvörunarbjöllur þegar við erum að leiða í lög svona ákvæði sem fela í sér eftirlitsgjald. Eftirlitsgjaldið er sem sagt á núgildandi verðlagi um 75 þús. kr., kannski einhverjum krónum eða aurum hærra núna þar sem verðbólgan tekur eins og við vitum á mikla rás undir öflugri efnahagsstjórn núverandi ríkisstjórnar. Engu að síður er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þarna sé um að ræða lágmarksgjald, þ.e. 75 þús. kr., auk 0,3% af innflutningsverði þessarar vöru. Það ræðst þá auðvitað af magni og verðmæti þeirrar vöru sem verið er að flytja inn hvert gjaldið verður á hverjum tíma.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að þarna erum við komin í dálítinn vanda. Þarna er verið að tala um skatt. Þarna er ekki verið að tala um þjónustugjald, það kemur skýrt fram. Við erum að gefa möguleika á talsvert opinni skattheimtu í þessum efnum, sem sagt 0,3% af verðmæti vörunnar. Lágmarksgjaldið er þetta hátt, 75 þús. kr., og þarf í rauninni ekkert endilega að endurspegla þann kostnað sem Lyfjastofnun, sem hefur með þetta mál að gera, verður fyrir við umsýslu þess. Það hefur ekki verið sýnt fram á það. Þetta er hugsað sem skattur, 0,3% af innflutningsverðinu, en með einhverju gólfi til þess að tryggja að allir sem flytja inn þurfi að minnsta kosti að borga 75 þús. kr. á núgildandi verðlagi. Spurningin er hvort það hefði átt að taka tillit til þess og hafa þá líka þak í þessum efnum því að við vitum að hlutfallslegur kostnaður við eftirlit með hlutfallslega meira magni eykst ekki í réttu hlutfalli við aukið magn. Hlutfallslegur kostnaður er auðvitað mestur fyrst og þess vegna er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að hafa eitthvert lágmark, en kostnaður vex síðan ekki í réttu hlutfalli við magnið. Það varð hins vegar ekki niðurstaðan.

Það er hins vegar mjög brýnt í þessu efni að árétta að þegar og ef þetta frumvarp verður að lögum verði þess rækilega gætt að hafa mjög gott samstarf við þá sem við eiga að búa. Við þekkjum það í lagasetningu þar sem verið er að reyna að ná utan um tiltekinn eftirlitskostnað með skattlagningu eða þjónustugjaldi að mönnum hættir dálítið til að þenja sig um of. Við höfum margfalda reynslu fyrir því úr öllum okkar eftirlitsstofnunum eins og við vitum.

Nýlega vorum við í velferðarnefnd, sem er ábyrgðarmaður þessa máls, einmitt að fjalla um eftirlit með lækningatækjum. Við munum hvernig fór um sjóferð þá. Það mál dagaði uppi í þinginu rétt fyrir áramótin þegar mönnum varð ljóst að við vorum komin í algjörar ógöngur. Við í minni hluta velferðarnefndar á þeim tíma vöruðum mjög sterklega við þeirri frumvarpssmíð allri saman og breytingarnar sem gerðar voru í meðferð nefndarinnar breyttu í grundvallaratriðum engu um það. Það var ekki bara verið að vísa í óskyldar innflutningsvörur sem andlag tekjustofns í þeirri skattlagningu heldur var um að ræða miklu víðtækari gagnrýni af okkar hálfu. Það er önnur saga.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því sem kemur fram í umsögn Samtaka verslunar- og þjónustu og er ástæða til að undirstrika hérna. Ég leyfi mér að vitna beint í umsögnina. Þetta er það atriði þar sem vísað er til heimildar til handa hæstv. velferðarráðherra að innleiða ákvæði tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Áður en ég kem beint að tilvitnuninni er hér verið að innleiða þessa tilskipun ESB-ráðsins, nr. 90/167/EBE, frá 26. mars 1990 um skilyrði sem hafa áhrif á blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs í bandalaginu og tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 26. október. Það var líka verið að leggja til heimild til handa hæstv. velferðarráðherra til að innleiða ákvæði þessarar tilskipunar í íslenskan rétt sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins. Það er þetta atriði sem Samtök verslunar og þjónustu fjalla um, með leyfi forseta:

„Hvað varðar síðarnefnda atriðið, um almenna innleiðingu í íslenskan rétt, þá skal hafa hugfast að um er að ræða innleiðingu á tilskipun en ekki reglugerð en þar á milli greinir að reglugerð skal innleiða samkvæmt orðanna hljóðan, þ.e. að svigrúm til breytinga á ákvæðum er lítið sem ekkert, en tilskipun ekki. Því verður að gera þá kröfu að innleiðing á tilskipun kalli á einstaka útfærslur í lögum, þ.e. til að veita ákvæðum tilskipunarinnar nægilega lagastoð. Því er það verulega gagnrýnisvert út frá lögskýringarsjónarmiðum að einstökum ráðherra sé veitt heimild til að innleiða tilskipun samkvæmt EES-samningnum líkt og um innleiðingu á reglugerð sé að ræða. Þess ber að geta að umrædd tilskipun er nokkuð ítarleg og hefur að geyma ákvæði sem ekki eru til umfjöllunar í lagafrumvarpi því sem nú er til umfjöllunar. Þar af leiðandi er í frumvarpi þessu lögð til innleiðing á tiltekinni tilskipun EES-samningsins án þess að efnisleg umræða fari fram um einstaka ákvæði hennar að öðru leyti en um leyfisskyldu og heimild til setningar reglugerðar.“

Þetta er dálítið áhugavert sjónarmið því að hér er bæði verið að vísa til þess að svo virðist sem farin sé leið reglugerðar við innleiðingu á þessari tilskipun og síðan er vakin athygli á því að við innleiðingu á tilskipuninni, sem nær miklu lengra en þetta frumvarp kveður í raun og veru á um, þá gerist það að við innleiðum hana án þess að fram fari efnisleg umræða um einstök ákvæði hennar að öðru leyti en því sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Þetta er áhugavert sjónarmið sem þarna kemur fram og við ræddum það dálítið í nefndinni en það kallaði út af fyrir sig ekki á breytingartillögu frá meiri hluta velferðarnefndar.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta. Eins og ég nefndi áðan má segja sem svo að þetta hafi ekki mikla praktíska þýðingu sem sakir standa, en auðvitað vitum við aldrei hvenær að því kemur að það kunni að reyna á þetta. Ég er svo sem ekkert að boða að það muni gerast en það kann auðvitað að gerast einhvern tímann í tímans rás og þá þurfum við að vera búin að átta okkur á því að þessi löggjöf verður að vera almennilega úr garði gerð og þess vegna kaus ég að hafa fáein orð um þetta. Þetta er líka hugsað sem ákveðin varnaðarorð gagnvart því hvernig menn ganga fram í gjaldtökunni í þessum efnum. Sömuleiðis er ástæða til að árétta það sem ég nefndi hér áðan og vitnaði til umsagnar Samtaka verslunar og þjónustu sem vekur athygli á því að við erum hér að innleiða tilskipun en ekki reglugerð og það getur vakið upp ýmsar spurningar sem Alþingi verður auðvitað að hugleiða í þessum málum eins og fleirum.