141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, með síðari breytingum. Hér er ekki um stórt eða mikið mál að ræða en það getur eftir sem áður skipt máli.

Nefndin fékk nokkra góða gesti á sinn fund og fékk umsagnir frá nokkrum aðilum og í megindráttum voru þær jákvæðar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Markmið breytinganna er að bæta stöðu Íslands í samkeppni um nýfjárfestingar við önnur lönd. Markmiðið er þannig útfært að lagðar eru til breytingar sem fela í sér ívilnanir til félaga vegna fjárfestingarverkefna, að tekjuskattshlutfall þeirra verði 18% í stað 20%, heimiluð verði undanþága frá stimpilgjöldum, afsláttur af fasteignaskatti verði hækkaður í 50% úr 30% og afsláttur af almennu tryggingagjaldi verði hækkaður í 50% úr 20%. Þá er lagt til að heimild til veitingar ívilnana í formi beins fjárstuðnings, þ.e. stofnfjárstyrkja, verði felld brott úr lögunum. Það er fyrst og fremst gert vegna þess að í raun og veru hefur það ákvæði ekki verið nýtt og ekki innan þess efnahagsramma sem við höfum haft undanfarin ár.

Skilningur meiri hlutans er að í ákvörðun ESA frá 6. desember 2006 hafi falist að íslensk stjórnvöld megi veita byggðastyrki til nýfjárfestinga í landsbyggðarkjördæmunum þremur í samræmi við byggðakort sem gildir á Íslandi út árið 2013. Ákvörðunin byggist á undanþágu frá almennri reglu um að óheimilt sé að veita rekstrarstyrki, þar með taldar skattaívilnanir sem hafi það að markmiði að lækka rekstrarútgjöld fyrirtækja. Undanþágan grundvallist á því að aðstoðin hafi þann tilgang að styrkja ákveðnar byggðir og styðja við byggðaþróun.

Í frumvarpssmíðinni hefur verið haft samráð við helstu aðila við undirbúninginn, þ.e. við Eftirlitsstofnun EFTA, fjármála- og efnahagsráðuneytið, velferðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, fjárfestingarsvið Íslandsstofu, fjárfestingarvaktina og Samkeppniseftirlitið.

Í umsögnum Íslandsstofu og Samtaka atvinnulífsins koma fram nokkrar athugasemdir. Íslandsstofa fagnar málinu, leggur áherslu á að löggjöfin sé til staðar en telur að byggja þurfi upp meiri sveigjanleika í henni en nú er. Þá bendir Íslandsstofa á að betra geti verið að fella reglur 8. og 12. gr. laganna um þjálfunarstyrki og stofnfjárstyrki brott úr lögunum frekar en að láta þær standa ónotaðar enda geti slík tilvist skapað óæskilegar væntingar meðal fjárfestingaraðila. Stærsta athugasemd Íslandsstofu snýr að því að löggjöfina beri að endurskoða á árinu 2013 og eðlilegra væri að framkvæma slíka heildarendurskoðun nú þegar frekar en að fara í smávægilegar breytingar á löggjöfinni eins og við erum að gera hér. Þær eru kannski smávægilegar en geta þó skipt heilmiklu máli. Íslandsstofa telur einnig að fyrirhugaðar breytingar falli að ákveðnu leyti illa að þeirri reynslu sem hafi hlotist af lögunum, en eftir sem áður kemur mjög skýrt fram í umsögninni að Íslandsstofa styður þær breytingar sem eru lagðar til hér. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins eru gerðar mjög svipaðar athugasemdir og í umsögn Íslandsstofu en samtökin vilja að sett sé fram tímasett áætlun um aðgerðir frekar en þær breytingar sem eru lagðar til.

Að mati meiri hlutans er vissulega heppilegt að lög séu stöðug og ekki séu gerðar tíðar breytingar á þeim. Engu að síður verður að telja jákvætt að gerðar séu lagfæringar á lögum þegar þau eru ekki bær til þess að ná þeim markmiðum sem er stefnt að. Slíkt kann að eiga við í ríkara mæli þegar lög taka til umhverfis sem er breytilegt.

Fyrir liggur heildarendurskoðun laganna á þessu ári. Við það tilefni mun gefast rúm til þess að fella inn í lögin ákvæði sem endurspegla eins og kostur er þá reynslu sem hefur mótast. Þangað til væri hægt að bíða og viðhalda ríkjandi ástandi. Hinn kosturinn er að gera strax smávægilegar breytingar sem líklegar eru til að gera Ísland meira aðlaðandi sem fjárfestingarkost. Það er sá síðarnefndi kostur sem meiri hlutinn valdi og leggur því breytingarnar til. Auðvitað hefðum við gjarnan viljað ganga lengra og eru þar til dæmis þjálfunarstyrkirnir afar spennandi kostur og væri mjög gott að við hefðum efnahagslegt bolmagn til að geta boðið upp á þá. Vonandi stendur það til bóta svo hægt verði að bjóða upp á þá því að ég held að það skipti mjög miklu máli.

Meiri hlutinn leggur til vegna nýrra upplýsinga sem hafa borist um tæknileg útfærsluatriði hjá ríkisskattstjóra að málinu verði vísað aftur til hv. atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr.

Undir nefndarálitið skrifa sú er hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Logi Már Einarsson, Björn Valur Gíslason og Ólína Þorvarðardóttir.