141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

geislavarnir.

561. mál
[15:20]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um geislavarnir. Frumvarpið er samið í velferðarráðuneytinu í samvinnu við Geislavarnir ríkisins. Með frumvarpinu er lögð til heildarendurskoðun á lögum um geislavarnir en slík skoðun hefur ekki farið fram síðan lögin voru sett fyrir rúmlega tíu árum. Frumvarpið tekur einkum mið af breyttum áherslum á alþjóðlegum vettvangi geislavarna, svo sem innan Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og Evrópusambandsins.

Lög um geislavarnir voru sett árið 2002. Þeim var ætlað að tryggja nauðsynlegar öryggisráðstafanir gegn geislum frá geislavirkum efnum og geislatækjum í því skyni að takmarka skaðleg áhrif hennar. Samkvæmt lögunum skal markmiði þeirra náð með markvissum aðgerðum, m.a. eftirliti með allri meðferð geislavirkra efna og geislatækja, athugunum og rannsóknum, vöktun á geislavirkum efnum í umhverfi, viðbúnaði við geislavá og fræðslu og leiðbeiningum um geislavarnir. Töluverð þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum sé horft til áherslna á alþjóðavísu.

Ný viðmið og reglur á vettvangi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og Alþjóðageislavarnaráðsins hafa til að mynda komið fram. Endurskoðun laga um geislavarnir er því tímabær.

Meginbreytingin sem felst í frumvarpinu er sú að í stað þess að miða geislavarnir við ákveðna starfsemi, svo sem heilbrigðisþjónustu eða iðnaðarstarfsemi, er lagt til að geislavarnir taki mið af mismunandi geislunaraðstæðum. Með þeirri nálgun eru sett fram mismunandi viðmið sem fara skal eftir í geislavörnum og um eftirlit.

Þá er lagt til í frumvarpinu með tilliti til almannaheillasjónarmiða að íblöndun geislavirkra efna við framleiðslu matvæla, fóðurs, leikfanga, skartgripa og snyrtivara verði alfarið bönnuð. Jafnframt er lagt til að innflutningur á vörum sem framleiddar hafa verið með framangreindum hætti verði bannaðar.

Af öðrum breytingum sem lagðar eru fram í frumvarpinu má nefna að ný reglugerðarheimild til handa ráðherra um að afmarka þætti geislavarna, svo sem um förgun geislavirks úrgangs, auk þess sem lagt er til að lögfest verði að með eftirliti við notkun jónandi geislunar verði tekið mið af þeirri áhættu sem notkuninni fylgir. Þá er lagt til að ákvæði um að ráðherra skipi geislavarnaráð verði fellt brott. Ekki þykir þörf á slíku ráði þar sem nægileg þekking á þessum málefnum er talin vera til staðar hjá Geislavörnum ríkisins.

Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli fjallað um frumvarp til laga um breytingu á lögum um geislavarnir en í því felast breyttar áherslur í geislavörnum í samræmi við alþjóðlega þróun á því sviði sem nauðsynlegt er að innleiða hér á landi. Það er því von mín að frumvarpið hljóti afgreiðslu á þessu þingi ef mögulegt er.

Ég leyfi mér því, virðulegur forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.