141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

574. mál
[15:36]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 78/2002, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum. Inntak þessa frumvarps varðar málefni svonefndra kyntra hitaveitna.

Með frumvarpinu eru lagðar til minni háttar breytingar á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Markmið þessara breytinga er tvíþætt, annars vegar að hvetja til notkunar innlends eldsneytis til kyntra hitaveitna og hins vegar að lækka kostnað ríkisins vegna niðurgreiðslna af húshitunarkostnaði til lengri tíma litið. Frumvarpið felur í sér samræmingu á stuðningi við aðgerðir sem draga úr niðurgreiðsluþörf ríkissjóðs til framtíðar með því að fella kyntar hitaveitur inn í sama fyrirkomulag og jarðvarmaveitur varðandi stofnstyrki.

Frumvarpið er í samræmi við tillögur starfshóps iðnaðarráðherra sem skipaður var til að gera tillögur um breytt fyrirkomulag á niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar að þessu leyti. Sá starfshópur skilaði skýrslu sinni í desember 2011 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Einnig þarf að endurskoða skilgreiningu á kyntum hitaveitum. Í núverandi lögum er ákvæði um lágmarkshlutfall raforku í orkunotkun kyntra hitaveitna. Með þessu ákvæði eru aðrir umhverfisvænir orkugjafar útilokaðir frá niðurgreiðslum. Síðan lögin voru sett hefur risið kynt hitaveita á Hallormsstað sem nýtir eingöngu grisjunarvið. Núverandi lög koma í veg fyrir að hægt sé að tengja íbúðarhúsnæði við veituna sem nyti niðurgreiðslna líkt og aðrar kyntar hitaveitur. Starfshópurinn telur engin rök fyrir því að niðurgreiða aðeins eina ákveðna gerð innlendrar og umhverfisvænnar orku.“

Þær tillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu eru í samræmi við þessa tillögu starfshópsins. Vatn frá kurlhitaveitunni á Hallormsstað er nú nýtt til að kynda skólahúsnæði og fleiri byggingar á staðnum, en áhugi er á að stækka veitusvæði veitunnar þannig að íbúðarhúsnæði á svæðinu, sem nú er kynt með raforku og nýtur niðurgreiðslna samkvæmt lögum nr. 78/2002, geti tengst veitunni. Áhrif þeirra lagabreytinga sem hér eru lagðar til yrðu sem hér segir, varðandi stækkun veitunnar á Hallormsstað:

„Íbúðarhúsnæðið sem stefnt er á að tengja við kurlveituna í dag fær niðurgreiðslur upp á 5,19 kr./kWst, ef það yrði tengt veitunni mundi niðurgreiðslan lækka niður í um 2,5 kr./kWst. Árlegur sparnaður ríkis yrði því um 1,5 millj. kr. fyrir þessar 22 íbúðir sem hugsanlega tengdust veitunni. Á móti kæmi um 17 millj. kr. eingreiðsla til stækkunar veitunnar og tenginga inn í hús. Þó svo að hér sé tekið dæmi af kurlhitaveitu á Hallormsstað gætu verið fleiri staðir á landinu þar sem hagkvæmt gæti verið að reisa slíkar veitur, verði frumvarp þetta að lögum.“

Frumvarpið opnar sem sagt á að fleiri innlendir og eftir atvikum umhverfisvænir, grænir orkugjafar en raforkuhitun kyntra veitna ein saman væru gjaldgengir í þessum efnum.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun. Verði frumvarpið að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á rekstur kyntra hitaveitna og er hér að mínu mati tvímælalaust um framfaramál að ræða. Það mun til lengri tíma litið hvort tveggja í senn lækka kostnað ríkisins vegna niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar og stuðla að framþróun í orkumálum og þróun fleiri innlendra umhverfisvænna orkugjafa sem koma til greina í þessum efnum.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.