141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

Þjóðminjasafn Íslands.

583. mál
[15:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir stuttu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011. Það felur í sér breytingar á gildandi lögum um Þjóðminjasafn sem voru sett árið 2011. Tilurð frumvarpsins má rekja til þess að ákveðið var að skipa nefnd í september 2012, þ.e. að frumkvæði frá Þjóðminjasafninu og að höfðu samráði við þjóðminjavörð og rektor Háskóla Íslands var skipuð nefnd sem var ætlað það hlutverk að koma fram með tillögur um hvernig mætti efla faglegt samstarf til framtíðar milli Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Nefndin var skipuð fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Háskóla Íslands og Þjóðminjasafninu. Hún lagði til að lögum yrði breytt svo sem fram kemur í frumvarpstexta.

Breytingarnar sem felast í frumvarpinu eru þær að Þjóðminjasafn Íslands verði skilgreint sem háskólastofnun. Þar með væri undirstrikað það hlutverk safnsins sem felst í rannsóknum og þekkingaröflun á borð við það sem tíðkast í tengdum greinum í háskólum. Hér á landi er þær greinar einkum að finna við Háskóla Íslands, þ.e. fornleifafræði, guðfræði, listfræði, menningarfræði, menningarmiðlun, miðaldafræði, safnafræði, sagnfræði og þjóðfræði.

Í frumvarpinu er lagt til að tilgreint verði í nýrri málsgrein 1. gr. laganna að Þjóðminjasafn Íslands sé háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag. Markmiðið með breytingunni er að styrkja náin tengsl Þjóðminjasafnsins við Háskóla Íslands í rannsóknum og kennslu á sviði áðurnefndra greina. Tengsl þessara stofnana verða svo nánar skilgreind á hverjum tíma í samstarfs- og þjónustusamningi, samanber 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Sérfræðingar Þjóðminjasafns munu þannig taka virkan þátt í kennslu og efna til rannsóknarsamstarfs við starfsfólk Háskóla Íslands.

Ég kynnti þetta frumvarp nokkrum hv. þingmönnum áður en það var lagt fram og spurningar hafa vaknað hjá þeim um þýðingu þess sem þarna er lagt til, þ.e. að Þjóðminjasafn yrði skilgreint sem háskólastofnun. Þar má auðvitað ekki rugla saman hugtakinu háskóli sem er lögverndað heiti fyrir sjálfstæða menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar og lista en það heiti mega þær menntastofnanir einar bera sem hafa hlotið viðurkenningu á tilteknum fræðasviðum rannsókna og kennslu, samanber 3. gr. laga um háskóla frá árinu 2006.

Háskólastofnanir eru annað fyrirbæri en opinberum háskólum er hins vegar heimilt að skipuleggja starfsemi sína með rekstri háskólastofnana sem heyra þá ýmist undir háskólaráð eða fræðasvið og deildir. Dæmi um háskólastofnun sem heyrir undir háskóladeild gæti verið Raunvísindastofnun Háskólans, samanber reglur nr. 685/2011, en síðan eru dæmi um að háskólastofnanir séu settar á fót með sérstökum lögum. Þau innlendu fordæmi sem við eigum um það eru Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Svo að ég nefni sérstaklega Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem er kannski skyldust þessu málefni, þá segir í lögum um hana að hún sé háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag sem heyri undir ráðherra, hafi náin tengsl við Háskóla Íslands og sé hluti af fræðasamfélagi hans.

Með þessu þingmáli er stefnt að því að Þjóðminjasafn fái sambærilega stöðu gagnvart Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þ.e. að sú rannsóknarstarfsemi sem er ástunduð hjá Þjóðminjasafni geti nýst í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra viðurkennda háskóla til eflingar og þekkingar innan fræðasamfélagsins. Mér finnst mikilvægt að segja hér að slíkt kemur samstarfsháskólunum til góða, meðal annars á þann hátt að sameiginlegar rannsóknir með Þjóðminjasafni Íslands verða þá teknar til greina við mat á rannsóknarstarfsemi hlutaðeigandi háskóla sem er ekki raunin núna.

Síðan er í 3. gr. frumvarpsins í samræmi við reglugerð um Þjóðminjasafnið lagt til að við safnið verði lögfest rannsóknarstaða í nafni dr. Kristjáns Eldjárns, en við Háskóla Íslands en unnið að því að koma á fót sérstakri rannsóknarstöð kenndri við Matthías Þórðarson sem fyrstur gegndi stöðu þjóðminjavarðar. Þessum rannsóknarstöðum verður ætlað að tengja stofnanirnar. Þær verða báðar á fræðasviðum Þjóðminjasafns og báðar munu að hluta felast í kennslu við Háskóla Íslands.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að segja að Þjóðminjasafn Íslands og Háskóli Íslands hafa átt margháttað samstarf í gegnum langa sögu þessara stofnana. Á síðastliðnu ári fögnuðum við 100 ára afmæli stofnunar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands fagnar 150 ára afmæli sínu í þessum mánuði. Þar er varðveittur fjölbreyttur safnkostur, á safninu starfa sérfræðingar og þar er vettvangur til að miðla rannsóknum. Í Háskóla Íslands eru rannsóknir og akademískt umhverfi sem stefnir að árangri og því tel ég ljóst vera að hagur er af því að tengja þessar stofnanir formlega og tryggja þannig betri árangur beggja.

Að þessu mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að umræðu lokinni og treysti því að hv. þingmenn eigi þar góða og málefnalega umræðu um málið.