141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að það eru fáir þingdagar eftir því að kosningabaráttan er greinilega komin á fullt, í það minnsta hér í þingsal.

Mig langar í fyrsta lagi að taka undir orð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar áðan, það er vitanlega algjörlega ólíðandi og óverjandi að seðlabankastjóri og hæstv. fjármálaráðherra skuli tala þannig við erlenda fjölmiðla eða bara almennt eins og þeir gera þegar kemur að gjaldmiðli landsins. Það er heldur ekki forsvaranlegt að Seðlabankinn eyði milljörðum, eða hundruðum milljóna í það minnsta, í að reyna að halda gengi krónunnar háu á sama tíma og seðlabankastjóri talar gjaldmiðilinn niður. Það gengur að sjálfsögðu ekki og það er mjög sérkennilegt ef við þingmenn ætlum að láta það átölulaust og ég hvet til þess að við gerum það ekki.

Hæstv. ráðherra þarf að svara fyrir þetta og auðvitað finnst mér persónulega að seðlabankastjóri þurfi líka að axla ábyrgð á þessu máli. Mér finnst algjörlega ólíðandi hvernig seðlabankastjóri kemur fram.

Síðan vil ég nefna það sem hefur verið rætt í þessum sal og kom aðeins fram áðan hjá hv. þm. Skúla Helgasyni, það er vitanlega rétt að þegar verðtryggingin var sett á fyrir um 30 árum var það vegna þess að eignir landsmanna voru að brenna upp. Útreikningum hennar var hins vegar breytt. Síðan var verðtrygging launa afnumin. Verkefnið núna er að afnema verðtrygginguna sem í dag virkar öfugt við það sem hún gerði þegar hún var sett á fyrir heimilin í landinu. Við þurfum líka að leiðrétta þau lán sem menn tóku fyrir hrun og lentu illa í hruninu. Við verðum hins vegar að gera það skynsamlega og af ábyrgð.

Ég verð að segja að mér finnst undarlegt, ég ætla ekki að segja að ég sé á móti því en mér finnst samt hljóma undarlega sú lagabreyting sem hv. þingmaður nefndi áðan vegna þess að ég fæ ekki skilið álit sérfræðings Evrópusambandsins öðruvísi en að þetta sé í lögum, það sem menn ætla að fara að breyta hér, að mönnum beri (Forseti hringir.) að tilgreina heildarupphæð á lántökukostnaði. (Forseti hringir.) Út á það gengur þetta bréf ef ég hef skilið það rétt.