141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er holur hljómur í ávirðingaflaumi hv. framsóknarþingmanna í garð hæstv. fjármálaráðherra og seðlabankastjóra fyrir það að segja sannleikann um íslenska peningamálakerfið. Þetta eru mennirnir sem fyrir örfáum missirum tóku til fótanna á harðahlaupum frá íslensku krónunni og vildu taka upp norska krónu eða kanadískan dollara. Hvað var það annað en að yfirgefa íslensku krónuna og með einhverjum hætti tala hana niður? Menn skulu gæta sanngirni í slíkri gagnrýni þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi pólitískan dug til að segja sannleikann í málinu.

Það sem ég vildi vekja athygli þingsins sérstaklega á eru þær ánægjulegu fréttir sem hafa borist af Bakka við Húsavík, að þar sé verið að gera ívilnunar- og fjárfestingarsamninga um uppbyggingu á iðnaði og stóriðju. Það er ánægjulegt og ég óska þeim norðanmönnum og okkur öllum innilega til hamingju með það. Um leið er spurt hvort sú ívilnun sé með sama hætti og sú er varðar fjárfestingarsamninga sem gerðir hafa verið vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar í Helguvík. Reykjanesbær hefur sent erindi og fyrirspurn til hæstv. atvinnuvegaráðherra þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort um sambærilega samninga og frumvörp fyrir iðnaðaruppbyggingu í Helguvík er að ræða og varðar uppbygginguna á Bakka.

Sjálfur tek ég undir að það er von að spurt sé því að það hlýtur að vera morgunljóst að sambærilega samninga verður að gera að öllu leyti og fráleitt annað en að jafnræði gildi í aðkomu að uppbyggingu á Bakka og í Helguvík, bæði sem varðar fjárfestingarsamninginn sjálfan með ívilnun er varðar tekjuskattinn og ekki síður það sem varðar uppbyggingu ríkisvaldsins við hafnargerð og lóðafrágang þar nyrðra. Þó að um ólíka staði sé að ræða verða að vera sambærileg kjör. Ég efast ekkert um að svo sé og skora á hæstv. ráðherra að taka af öll tvímæli og birta um þetta (Forseti hringir.) öll gögn og sýna fram á að algjört jafnræði gildir, hvort heldur er við uppbygginguna á Helguvík á Suðurnesjunum (Forseti hringir.) eða norður á Bakka við Húsavík.