141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mjög hörð gagnrýni á vinnubrögð forustu hv. atvinnuveganefndar kom fram í gær undir liðnum um fundarstjórn forseta. Þar sem ég er nú í forustu nefndarinnar tel ég rétt að ég greini frá því að ég tel ekkert óvanalegt við vinnubrögðin þar. Það er ekkert óvanalegt að gestir séu kallaðir inn til að fjalla um mál þó að umsagnarfrestur sé ekki liðinn. Það er heldur ekkert óvanalegt að menn noti þann tíma sem gefst og leyfi er fyrir og nýti vel þann tíma sem þeir hafa. Málið fékk tíu daga umsagnarfrest og var tímanlega lögð fram ábending til þeirra sem hlut áttu að máli svo þeir vissu að þetta mál væri væntanlegt, enda hafa ekki komið neinar athugasemdir frá neinum gestum sem komið hafa fyrir nefndina við það að vera kallaðir inn. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)

Svo er annað, þetta mál fékk ítarlega umfjöllun á síðasta þingi. Þetta mál var undir á 24 fundum og 84 umsagnir bárust. Það er búið að óska eftir því við nefndarmenn að þeir láti vita af óskum um gestakomur og engar óskir hafa bæst við þá gesti sem við höfum þegar fengið.

Til að létta lund nefndarmanna vil ég geta þess að allir þeir gestir sem búnir eru að koma koma aftur í næstu viku. Ég held að fá mál hafi fengið jafnítarlega umfjöllun og umræðu og þetta stóra mál. Það hefur komið fram í vinnu nefndarinnar að þær breytingar sem hafa verið gerðar frá því í fyrra séu allar jákvæðar og ívilnandi fyrir greinina. Því held ég að þetta sé mikill stormur í vatnsglasi (Forseti hringir.) hjá félögum mínum í nefndinni og bið þá aðeins að hugsa sig um áður en þeir fara upp með svona ósköp aftur.