141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hvern heldur hv. formaður Framsóknarflokksins að hann sé að plata með því að tala upp íslensku krónuna? Framsóknarflokkurinn var svo duglegur við að tala upp íslensku krónuna að eftir að hún hrundi þurfti að setja lög í landinu til þess að banna útlendingum að fara heim með peningana sína. Það afhjúpar auðvitað þá kreppu sem gjaldmiðillinn er í og það hlýtur að vera mikilvægt fyrir trúverðugleika fjármálaráðherra og seðlabankastjóra að fjalla af hreinskilni um þann vanda sem fylgir því að reyna að hafa minnsta fljótandi gjaldmiðil í heiminum.

Það þýðir ekkert að reyna að blekkja útlendinga í þessum efnum. Það er einfalt frá því að segja að viðskipti með íslensku krónuna erlendis fara ekki fram í bönkum heldur fyrst og fremst á aflandsmarkaði á allt öðru og lægra gengi en skráð er hér á landi, eins og var um myntir þjóðanna í Austur-Evrópu hinum megin við járntjald. Það blasir við hverjum manni og sá vandi sem því fylgir.

Virðulegur forseti. Í þriðja lagi, er það ekki hv. formaður Framsóknarflokksins sem á Íslandsmet í því að hafna krónunni? Hefur hann ekki tvisvar sinnum á þessu kjörtímabili hafnað henni? Fór hann ekki í annað skiptið austur um haf til Noregs til að athuga hvort hægt væri að taka upp norsku krónuna því honum fannst íslenska krónan svo ómöguleg? (Gripið fram í.) Þegar hann hafði lokið því, fór hann þá ekki að skoða kanadadollarann hér hinum megin við hafið? (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Varðandi það að krónan hjálpi okkur í atvinnulífinu, í atvinnuuppbyggingunni eins og fram kom hjá hv. varaformanni flokksins, þá er það auðvitað líka fjarri öllu lagi. Hver maður veit að þessi litli gjaldmiðill hefur varnað erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi um áratugaskeið (Gripið fram í.) og það eigum við að ræða af hreinskilni. Alveg sama hvaða flokkar hafa verið við völd. Við höfum ekki náð þeirri erlendu fjárfestingu í íslensku atvinnulífi (Forseti hringir.) sem við hefðum þurft að ná til þess að vera í þeirri (Forseti hringir.) fremstu röð sem við viljum vera. Þessi vandamál eigum við að (Forseti hringir.) ræða í hreinskilni en ekki reyna að plata útlendinga með því að tala krónuna upp, (Forseti hringir.) krónuna sem enginn vill kaupa.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)