141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir gerði athugasemd við fyrri ræðu mína hér undir þessum dagskrárlið og gerði því skóna að ég hefði sennilega farið á leiklistarnámskeið í gær vegna leikrænna tilburða. Ég get upplýst það í fullri hreinskilni að ég var ekki á leiklistarnámskeiði í gær og hef ekki gengið í leiklistarskóla en hugmyndin er fín. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] Hins vegar má kannski segja við hv. þingmann að úr þeirra ranni, sjálfstæðismanna kannski einna helst, hafa komið tillögur um að draga úr framlögum til lista og menningar og þá vitum við það. (Gripið fram í: Já.)

Virðulegur forseti. Ég ætla að halda því til haga sem ég ræddi áðan um stöðuna hjá okkur og hvað Sjálfstæðisflokkurinn boðar í aðdraganda þessara kosninga. Það er mikilvægt að halda staðreyndum til haga, það er mikilvægt að rifja upp hvað gerðist 2008 um leið og menn móta að sjálfsögðu stefnu sína og blása til nýrrar sóknar til framtíðar. Skuldir íslenskra heimila jukust gríðarlega í aðdraganda hrunsins. Þær náðu hámarki á fyrri hluta ársins 2009 og reyndar voru íslensk heimili fyrir hrun ein þau allra skuldugustu sem fyrirfundust á byggðu bóli. Þau voru illa undirbúin undir samdrátt, hvað þá hrun af þeirri stærðargráðu sem hér varð. Skattbyrði 60% heimila á landinu er núna lægri en hún var árið 2007, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Niðurgreiðslur á vaxtagjöldum af íbúðalánum hafa á þessu kjörtímabili verið stórauknar og nema nú nærri 30% á móti réttum 12% árið 2006, í miðju góðærinu þegar skuldasöfnun stóð sem hæst. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Er ekki rétt að hafa þessar staðreyndir í huga þegar við göngum til móts við kosningar?