141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[15:57]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir að brydda upp á henni. Hún er mjög mikilvæg. Fjöldi ferðamanna á Íslandi er orðinn mjög mikill. Nú þegar er hann tvöfaldur fjöldi landsmanna. Ég leyfi mér að benda á að yfirvöld á Spáni settu stopp á fjölgun ferðamanna þegar þeir voru orðnir jafnmargir landsmönnum. Það er ástæða fyrir því að þjóðir bregðast við og það er ástæða fyrir því að við þurfum að bregðast við.

Það er mjög jákvætt og hefur verið að ferðaþjónustan hafi eflst svona mikið og hversu atvinnuskapandi hún hefur verið, en við þurfum líka að spyrja okkur spurningarinnar: Hvenær er nóg komið? Það er augljóst mál að ekki er hægt að fjölga frekar ferðamönnum á tilteknum stöðum á tilteknum árstímum. Landmannalaugar hafa verið nefndar sem dæmi en fjöldi annarra staða er líka undirorpinn slíku. Þessu er eingöngu hægt að bregðast við á þessum tilteknu stöðum á tilteknum tímum með fjöldatakmörkunum vegna þess að aðgangseyrir takmarkar ekki fjöldann. Ferðamaður sem hefur komið um langan veg til Íslands og þarf kannski að greiða um 500 kr. fyrir aðgang að Landmannalaugum mun ekki hika við það. Það mun engin takmörkun á fjölda nást með því. Menn munu hins vegar græða peninga á því og þess vegna held ég að menn tali svolítið meira fyrir gjaldtöku en að þeir hafi áhuga á að takmarka fjöldann.

Aðgangseyrir að ferðamannastöðum beint er líka óásættanlegur fyrir okkur Íslendinga sem þegar höfum greitt fyrir uppbyggingu á þessum stöðum með sköttum og EES-samkomulagið kemur einfaldlega í veg fyrir að hægt verði að mismuna útlendingum og Íslendingum í því tilviki.

Fjöldatakmarkanir á viðkvæmum ferðamannastöðum eru þekktar víða um heim. Fólk sem ætlar til dæmis að skoða ákveðna staði í Bandaríkjunum þarf einfaldlega að skrá sig á biðlista og getur komið í heimsókn og skoðað staðinn eftir hálft annað ár, tvö ár í ákveðnum mánuði. (Forseti hringir.) Því miður er staðan sem við þurfum að viðurkenna og standa frammi fyrir með suma okkar staði sú að við þurfum að takmarka aðgang (Forseti hringir.) á vissum árstímum með þeim hætti. Ég mun fara nánar yfir frekari atriði um þetta mál í (Forseti hringir.) næstu ræðu minni.