141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[16:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ferðaþjónustan hefur verið mikill vaxtarbroddur allt þetta kjörtímabil enda hefur ferðamönnum farið fjölgandi. Stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum með margvíslegum hætti eins og beinum stuðningi við kynningarstarfsemi erlendis. Það hefur leitt af sér vöxt og skemmst er að minnast þess að Icelandair tilkynnti í desember í fyrra um 150 milljarða kr. fjárfestingu í 12 flugvélum. Sá vöxtur er af hinu góða, það eru fleiri störf og auknar þjóðartekjur, en eins og hefur komið fram í umræðunni þarf að huga að grunngerðinni. Það hefur núverandi ríkisstjórn gert með langtímasjónarmið að leiðarljósi og með því að stuðla að aðgerðum á fjölsóttum viðkvæmum ferðamannastöðum, bæði til þess að vernda náttúruna en ekki síður til að tryggja öryggi ferðamanna.

Langtímasjónarmið er náttúruvernd og efling þjóðgarða og friðlýstra svæða er mér ofarlega í huga. Þar nefni ég jöklaþjóðgarðana sem kenndir eru við Vatnajökul og Snæfellsjökul. Einnig vil ég benda á vinsælan ferðamannastað, Látrabjarg, þar sem því miður bæði vegir og allt aðgengi er mjög bágborið og þarf að bæta verulega úr. Með lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem sett voru í júní 2011 voru settar í þau verkefni 69 milljónir, úthlutað úr sjóðum til 30 verkefna. Það sem mér finnst almennt í málinu er að við þurfum að huga miklu betur að dreifingu ferðamanna um allt land. Það hefur verið komið inn á það hér að mikill hugur er í mönnum víða um land í uppbyggingu ferðaþjónustu og það þarf með öllum ráðum að beina ferðamönnum um landið allan ársins hring.

Ég held að það sé verkefni okkar hér og nú.