141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[16:08]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég lauk fyrri ræðu minni á því að minnast á fjöldatakmarkanir sem eru þekktar víða um heim. Ég leyfi mér að nefna í því sambandi að hér á landi að einn vinsælasti ferðamannastaður landsins afleiðing af virkjun, þ.e. Bláa lónið, og þar er einfaldlega stundum uppselt og menn þurfa að bíða með að komast ofan í.

Það er ekkert athugavert við að setja fjöldatakmarkanir á ákveðna staði ef með þarf.

Hvað varðar gjaldtöku af ferðamönnum hef ég talað fyrir gistináttagjaldi í hófi þar sem það yrði ókeypis fyrir yngri en 16 ára þannig að fjölskyldufólki yrði ekki íþyngt um of hvað varðar ferðalög um landið. Slíkt gistináttagjald yrði nýtt til uppbyggingar á ferðamannstöðum og það er einfaldlega einfaldasta og besta leiðin til þess. Slíkt gistináttagjald þarf hins vegar að vera vel skilgreint fyrir fram í verðlistum ferðaþjónustuaðila og í reikningum sem fólk fær í hendurnar þegar það greiðir fyrir gistinguna þannig að það komi ekki fyrir að það sé innifalið í gjaldinu heldur sé það sérliður sem er ætlaður til náttúruverndar á Íslandi. Það sér maður til dæmis á hótelreikningum í París þar sem er sérstakt menningarsjóðsgjald til að greiða fyrir viðhald á þeim stofnunum og byggingum sem eru í borginni. Það gerir enginn ferðamaður athugasemdir við svoleiðis svo lengi sem peningarnir eru notaðir í það.

Þannig á að útfæra gistináttagjaldið en ekki klúðra því eins og hefur verið gert hingað til.

Hvað varðar innanlandsflugið leyfi ég mér að benda á að ef innanlandsflug væri frá Keflavíkurflugvelli og út á land mundi það örugglega dreifa ferðamönnum miklu betur úti á landi en sú aðferð sem við höfum núna, að neyða þá til Reykjavíkur fyrst, hugsanlega til að gista þar eina nótt og senda þá svo hugsanlega út á land.

Ísland allt árið er góð hugmynd en menn verða líka að viðurkenna að vegna legu landsins, skjótra veðrabrigða og stuttrar dagsbirtu að vetri til getur slæmt veður valdið ófærð með mjög skömmum fyrirvara og jafnvel skapað hættuástand og fyrir erlenda ferðamenn þurfa menn að fara varlega í að „agitera“ fyrir of mikilli vetrarferðamennsku, a.m.k. á (Forseti hringir.) einstaklingsvegum.