141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna á Íslandi.

[16:13]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu þótt ég verði að viðurkenna að mér fannst ósköp ámátlegt að heyra að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, geta ekki einu sinni brugðið út af vana sínum og reyna að sjálfsögðu að klekkja á ríkisstjórninni þegar við erum að ræða — hvað? Við erum að ræða alveg ævintýralegan vöxt í íslenskri ferðaþjónustu sem stjórnvöld hafa sannarlega stutt vel við bakið á og gert betur í þeim efnum en nokkur ríkisstjórn fyrr eða síðar í sögunni.

Hvenær hafa menn lagt tæpan milljarð króna í markaðssetningu með greininni á þremur árum eins og við erum búin að gera núna?

Skattalegt umhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi er mjög hagstætt. Við erum með eitt lægsta tekjuskattshlutfall á lögaðila sem þekkist. Það er enn þannig í okkar skattarétti að ýmiss konar afþreying í ferðaþjónustu er flokkuð sem fólksflutningar og ber engan virðisaukaskatt, öfugt við það sem er í öðrum löndum. Þótt gisting verði færð í 14% þrep í haust verður veitingasala áfram í 7% o.s.frv. Ég kann þetta nokkuð og ég fullyrði að stjórnvöld búa hvergi jafn vel að ferðaþjónustu á byggðu bóli í kringum okkur og á Íslandi, enda er hún að taka út ótrúlegan vöxt og það er mikil fjárfesting í greininni. Icelandair fjárfestir fyrir milljarða ár eftir ár í auknu leiðakerfi, í hótelum og það gera fjölmargir aðrir. Byggðastofnun upplýsti mig um það á dögunum að sú grein sem er núna að auka mest lántökur hjá Byggðastofnun er auðvitað ferðaþjónustan úti um landið. Framkvæmdasjóður ferðamála sem mun veita hátt í 2 milljarða kr. á þremur árum í beinar fjárfestingar í uppbyggingu ferðamannastaðainnviða er algerlega nýr tími í því hjá okkur. Hvenær hefur annað eins verið gert? Aldrei, enda er þörfin auðvitað mikil, samanber þá fjölgun sem við sjáum og er fram undan.

Frú forseti. Það er á einu sviði sem ég tel að við séum ekki enn að gera nógu vel og það er í samgöngunum sjálfum. Það er í vegakerfinu og það er í vetrarþjónustunni. Við þurfum að taka okkur á þar og ef hugur fylgir máli þarf að skapa svigrúm í samgönguáætlun fyrir það að þjónusta betur uppbyggingu (Forseti hringir.) ferðaþjónustunnar og sérstaklega sem heilsársatvinnugrein.