141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:34]
Horfa

Margrét Pétursdóttir (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórnin tekst á við stórt vandamál þar sem Kolgrafafjarðarmálið er og hefur gert það vel, bæði hvað varðar samráð um fjármagn og hvert skal veita það, samráð og samvinnu við nærsamfélagið þar sem hamfarirnar áttu sér stað og samstarf við fagaðila sem vinna við vöktun og rannsóknir á umfangi vandamálsins og um framhald á úrlausnum. Þarna koma margir aðilar saman og vinnan er mikil og samvinnan góð.

Miðað við hvernig haldið hefur verið á málum hingað til má treysta því að umhverfisráðherra ásamt öðrum sem að málinu koma klári það með sóma. En það má alltaf hvetja til enn betri verka. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að sem allra fyrst verði rannsakað, ef hægt er, hvort hér sé einungis um náttúrufyrirbæri að ræða eða einnig mannanna verk og ef um hið síðarnefnda er að ræða að við skömmumst til að gangast við því og bæta úr.