141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ekki vitað nákvæmlega hvað olli síldardauðanum í Kolgrafafirði en þó hafa verið uppi getgátur um að á einhverjum tímapunkti hafi þverun fjarðarins leikið eitthvert hlutverk, að minnsta kosti ekki hjálpað til. Ég ætla ekki að reyna að varpa ljósi á það eða hvaða afleiðingar sú þverun hefur haft en ætla hins vegar að nota tækifærið til að minna á hversu nauðsynlegt er að ganga varlega um náttúruna.

Aukin velmegun samfara stórstígum tækniframförum gerir okkur sífellt auðveldara að höggva í hana óafturkræf skörð. Það er því margt sem mælir með því að við temjum okkur meiri þolinmæði og yfirvegun áður en við ráðumst í framkvæmdir. Hugsum kannski oftar smærra, tökum ögn fleiri og öruggari skref.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að flöskuháls framkvæmda sé ekki það þröngur að hann hamli öllum framförum en hann verður þó að vera það grannur að hann komi í veg fyrir að við völdum náttúrunni óbætanlegan skaða. Þetta leiðir ekki síst hugann að einu vinsælasta málinu þessa dagana, mögulegri gas- og olíuvinnslu Íslendinga. Jafnáhugasamur og ég er um það mál og sannfærður um þá möguleika sem í því liggja minnir þetta atvik í Kolgrafafirði á það að við þurfum að hnýta alla lausa enda. Það er því algjör óþarfi að gera lítið úr röddum þeirra sem hvatt hafa til varfærni og jafnvel snúa út úr orðum þeirra. Jafnvel stórkostleg tækifæri sem bíða okkar í grænni orkuöflun, svo sem nýting sjávarfalla, geta auðveldlega tekið á sig talsvert grárri mynd ef við temjum okkur ekki að rannsaka vel alla hluti áður en við ráðumst í framkvæmdir. Þetta var sem sagt um síldina, hæstv. forseti.