141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

síldardauði í Kolgrafafirði.

[16:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna hér sem er að sjálfsögðu eðlileg í ljósi þess hvað hefur gengið á í Kolgrafafirði og fyrir vestan á Snæfellsnesi. Það er vitanlega óhemju mikið magn af síld sem hefur drepist og ég tek undir það þegar menn segja að þetta þurfi að rannsaka og við þurfum að komast til botns í því hvað veldur að svona lagað gerist. Að sama skapi verðum við líka að horfa á aðstæðurnar. Það er ljóst að síldin ákvað á einhverjum tímapunkti að synda aftur undir brúna og út í kaldari sjó, eða hvernig við orðum það, meira súrefni, en þar bíða háhyrningar til að gæða sér á síldinni. Allt þetta þarf að sjálfsögðu að skoða mjög vandlega.

Það sem mig langar þó að koma á framfæri og lýsa ánægju með viðbrögð stofnana ríkisvaldsins og ef ríkisvaldið er að velta fyrir sér hvað megi læra af því sem þarna gerðist finnst mér að við þurfum að hafa tvennt í huga. Við þurfum í fyrsta lagi að hafa í huga hvernig við bregðumst við næst þegar þetta gerist, því eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði hefur þetta gerst áður, það er reyndar töluvert langt síðan og kannski voru aðrar aðstæður þá, ég kann ekki þá sögu algjörlega, en við þurfum að læra af þessu og móta viðbrögð okkar eftir því.

Mér finnst að við þurfum líka að taka inn í þær áætlanir hvernig við getum mögulega bjargað verðmætum. Þarna fara mikil verðmæti forgörðum. Mér finnst að það verði að taka inn í þá áætlun hvort við getum einhvern veginn gert okkur pening úr því sem þarna er. Er hægt að bregðast við líkt og börnin gerðu, safna síldinni saman og frysta? Mér finnst að það þurfi að vera inni í áætluninni líka, hvernig við björgum þeim verðmætum sem þarna fara forgörðum. Við getum ekki bara einblínt á að læra af þessu og hvernig hreinsunin eigi að fara fram. Við verðum líka að taka inn í þau miklu verðmæti sem þarna fara forgörðum.