141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

106. mál
[16:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. lýsti ég áhyggjum mínum af því að samþykkt frumvarpsins mundi fjölga möguleikum vogunarsjóða til að sniðganga höftin. Seðlabankinn telur að ekki sé hætta á því, lögin um gjaldeyrishöftin skylda bæði innlenda og erlenda verðbréfasjóði til að bera allar fjármagnshreyfingar sjóðanna undir Seðlabankann.

Virðulegi forseti. Ég óttast hins vegar að atburðarásin sem fer í gang við afnám gjaldeyrishafta verði ógagnsæ þar sem við erum stöðugt að innleiða nýjar ESB-tilskipanir um frjálst flæði fjármagns. Seðlabankinn mun því, þegar hann hefur afnám gjaldeyrishaftanna, eiga mjög erfitt með að meta afleiðingar þess að fara í afnámsáætlunina. Ég hef því ákveðið að sitja hjá.