141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókhald, með síðari breytingum. Það sem kannski liggur fyrst fyrir er hvort menn vilji leyfa önnur tungumál í bókhaldi og reikningum en nú er leyft. Nú er leyft að hafa sama tungumál á reikningunum og fylgir þeirri mynt sem valin er, þ.e. ef valinn er dollar er enska, ef valin er evra getur maður valið dönsku eða eitthvað annað.

Vegna málverndarsjónarmiða hafa komið athugasemdir um að ekki sé rétt að heimila að bókhaldið sé á erlendu tungumáli. Breytingartillaga um að alltaf skyldi nota íslensku í bókhaldi var felld. Síðan var rætt nokkuð mikið í nefndinni um heimild til að varðveita gögn allt að sex ár og flytja til útlanda.

Meiri hlutinn gerir þá tillögu varðandi tungumálið að ekki sé rétt að gera athugasemd við 5. gr. frumvarpsins, um að nota megi dönsku eða ensku. Mér skilst reyndar að danska sé mjög lítið notuð í framsetningu bókhalds, það sé aðallega enska, þannig að kannski hefði verið einfaldara að taka bara það fram.

Síðan var rætt nokkuð mikið um gagnsæi eignarhalds. Nefndin samþykkti við 2. umr. að listi yfir alla hluthafa í nafnaröð ætti að fylgja ársreikningi. Það er að mínu mati ekki góð lausn vegna þess að nafnaröð segir voðalega lítið. Jón Jónsson getur komið fyrir tíu sinnum og enginn veit hver það er en síðan kemur kannski sjaldgæft nafn einu sinni og þá vita allir um hvern er að ræða. Spurningin um persónuvernd kemur þar inn í líka.

Meiri hlutinn breytir fyrri hugmynd um að hafa nöfnin ein saman og kemur fram með skilyrði um bæði nöfn og kennitölur. Það er strax til bóta, þ.e. ef menn vilja upplýsa um alla hluthafa alls staðar.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur fram svohljóðandi breytingartillögu við frumvarp til laga um ársreikninga, með leyfi frú forseta:

„Þá skal fylgja með skýrslu stjórnar skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa í stafrófsröð ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers þeirra og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Ársreikningaskrá skal gera félögum kleift, við rafræn skil á ársreikningum, að nota áður innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra um hluthafa í félaginu til að útbúa þann lista.“

Í byrjun eða um miðjan febrúar þurfa menn að senda inn hlutafjármiða, hann er á rafrænu formi og þar með hefur ársreikningaskrá slíkan lista. Menn geta notað þann lista til að birta þennan hluthafalista með ársreikningum.

Það sem ekki hefur verið rætt nægilega er hvaða upplýsingar menn gefa þarna um einstaklinga sem hugsanlega kæra sig ekkert um að ættingjar og sérstaklega vinir viti að þeir eigi hlutafé í einhverju fyrirtæki sem hugsanlega mætti veðsetja til að losa fé. Mér finnst þetta skipta svipuðu máli og með innstæður, það á ekki að birta upplýsingar um kennitölur innstæðueigenda og hvað þeir eiga í banka. Hins vegar finnst mér skipta verulegu máli að fyrir liggi upplýsingar um kennitölur hlutafélaga sem eiga í hlutafélagi og allra aðila sem eru með takmarkaða ábyrgð. Það byggi ég á því sem ég hef margoft rætt, að fyrir hrun stunduðu menn mikið að fara með fjármagn í hringi og juku þannig eigið fé hlutafélaga í stórum stíl. Mér finnst að einhver þurfi að geta haft eftirlit með því að það sé ekki gert og hefði viljað að Fjármálaeftirlitið fylgdist með því að ekki væri verið að misnota þessa hringferla, hlutafélagaformið, til að sýna fram á aukningu eigin fjár í hlutafélögum.

Þetta var sem sagt nefnt ansi mikið en í dag er enginn sem fylgist með þessu í grunninn. Það er ekki þannig að einhver fylgist með því að svona hringferlar myndist ekki. Mér sýnist á niðurstöðum sérstaks saksóknara í þeim málum sem komu upp eftir hrun að þetta verði látið óátalið. Þetta brýtur ekki lög, enda vantar um þetta lög, frú forseti, og þess vegna finnst mér að einhvers staðar ætti að koma fram skýring um að þetta verði gert, þ.e. að einhver fylgist með þessu, t.d. Fjármálaeftirlitið. Svo þarf að banna einhvern veginn að slíkt gerist, en þá lendir maður strax í þeim vanda að þetta er alþjóðlegt vandamál og Íslendingur sem stofnar hlutafélag á Tortólu eða annars staðar getur notað það félag til þess að auka eigið fé í hlutafélagi á Íslandi.

Mér sýnist sem menn grípi dálítið í tómt með því að upplýsa um hluthafa hér á landi. Ef það stendur allt í einu eitthvert hlutafélag í Lúxemborg eða á Tortólu eru menn dálítið í lausu lofti með það hvað þeir ætla að gera við það. Við lendum alltaf í því að þetta er alþjóðlegur vandi og bundinn við hlutafélagaformið sem slíkt sem ekki gerir ráð fyrir því að hlutafélög eigi í öðrum hlutafélögum og jafnvel myndi hring sem geti aukið eigið fé fyrirtækjanna.

Það er mikill vilji til þess að reyna að átta sig á því hverjir eiga nýju bankana. Það tengist þessu þó að það séu sérlög um fjármálastofnanir sem er líka verið að ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það getur vel verið að mönnum takist að koma þar á upplýsingum um það hverjir eiga bankana, en það er erfiðara að finna út úr því hver hinn raunverulegi eigandi er, þ.e. hvaða persóna á í viðkomandi banka og alveg sérstaklega hver fer fyrir hönd kannski milljón hluthafa einhvers staðar úti í heimi sem kröfuhafi og verðandi eigandi íslensku bankanna. Meira að segja skipta þessar kröfur um hendur oft á dag. Það getur verið erfitt um vik að komast að því hver hinn raunverulegi eigandi er og hver stýrir bönkunum á endanum.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um það sem kom fram í nefndaráliti meiri hlutans sem ég gat ekki skrifað undir vegna þess að mér finnst að það sem menn eru að gera þarna með gagnsæi eignarhalds bara ekki ná markmiði sínu. Þá er spurningin hvort menn eiga að vera að þessu á annað borð.