141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður sagði að menn færu til aflandseyja og annað til að sniðganga skattgreiðslur. Ég vil spyrja hann hvort það sé ekki oft miklu mikilvægara fyrir aðila sem vinna hratt að auka heldur eigið fé fyrirtækja með því að láta peninga ganga í hring til aflandseyja. Eins og ég hef margoft nefnt þarf þrjú fyrirtæki til þess að auka eigið fé. Ef eitt þeirra er staðsett á aflandseyju veit enginn að um hring sé að ræða. Eitt fyrirtæki á Íslandi eignast ef til vill hlut í fyrirtæki í Þýskalandi með því að dæla peningum þangað, það á svo aftur fyrirtæki á Cayman-eyjum eða einhvers staðar og eykur eigið fé fyrirtækisins þar, síðan kaupir það félag hlut í fyrirtæki á Íslandi og eykur eigið fé hér á landi. Slíkri aukningu á eigin fé með hringferli peninga er ekki nokkur leið að komast að.

Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að menn séu aðallega að hugsa um sniðgöngu skattgreiðslna þó að það geti eflaust verið til langs tíma. Ef við hugsum um tvö, þrjú eða fjögur ár hugsa ég að margir sem voru í þessu á sínum tíma hafi ekkert verið að hugsa til margra ára, þeir voru kannski að hugsa um nokkra mánuði og létu peningana ganga í kring til þess að auka eigið féð hratt og vel og fá þannig betra lánshæfismat o.s.frv.

Svo varðandi að málið hafi batnað í meðförum þingsins, þá á hv. þingmaður væntanlega við breytingartillögu um ársreikninga þar sem nefndin flytur breytingartillögu sem er til bóta, en spurning mín til hv. þingmanns er: Hver á að fylgja þessu eftir? Hver fær upplýsingarnar? Hvar er þessi skrá geymd? Það er alla vega ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu eða tillögum meiri hlutans að þessi skrá verði neitt aðgengileg.