141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

bókhald.

93. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mjög mikla trú á einkaframtakið. Ég geri ráð fyrir að Creditinfo muni nýta sér þær upplýsingar sem við erum að gera aðgengilegar í gegnum þessa lagasetningu (Gripið fram í.) til þess að búa til gagnagrunn og selja viðskiptadeildum landsins. Það var reyndar þannig hér upp úr 2000 að Creditinfo var í samstarfi við mig og nemendur mína við viðskiptafræðideild HR um hvaða upplýsingar við vildum meðal annars nýta úr ársreikningum vegna þess að þeir höfðu hug á að búa til gagnagrunn sem nýttist við rannsóknir. Ég geri því ráð fyrir því að þau einkafyrirtæki sem bjóða upp á alls konar upplýsingagjöf muni nýta sér þessa lagasetningu til að bæta þjónustu sína við núverandi og væntanlega kúnna.

Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að það vekur furðu að menn í Brussel skuli ekki hafa áhyggjur af þessum krosseignatengslum og ekki minnast á það sem mikilvæga ástæðu fyrir því að upplýsa þurfi um raunverulegt eignarhald fyrirtækja. Þeir hafa mestan áhuga á skattsvindli og umræðan snýst um það, ekki bara í Brussel heldur líka í London, þ.e. um þau fyrirtæki sem eru með skráð aðsetur á aflandseyjum en starfsemi í til dæmis Bretlandi og greiða þar af leiðandi litla sem enga skatta til breska ríkisins. Það er auðvitað mjög mikilvægt að vera með gagnsætt eignarhald til að koma í veg fyrir krosseignatengsl og tryggja það einmitt að viðskiptafræðideildirnar geti kortlagt þessi krosseignatengsl en ekki bara þær heldur líka Fjármálaeftirlitið sem á reyndar að gera það samkvæmt lögum.