141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ástæða er til að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu máli og þá rækt sem hann leggur við það. Ég efast ekki um að hugur hans er sprottinn af þeirri sannfæringu að í þessum efnum þurfum við að gera vel.

Við erum ekki alveg sammála, ég og hv. þingmaður, að því leyti til að ég held að við séum ekki að fara í neina óvissuferð með málið. Ég held raunar að með því að sameina nefndirnar, skapa þeim að því leyti til sterkan faglegan bakgrunn, meðal annars í tengslum við ráðuneytið, muni stuðningur við þær ekki minnka heldur aukast.

Ég skil hins vegar mætavel áhyggjur hv. þingmanns og eins og ég kom inn á á fyrri stigum málsins held ég að þær séu algjörlega réttmætar, einkum og sér í lagi áhyggjur hans af sjálfstæði löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu en sjálfstæði rannsóknarnefndar eins og þessarar er mjög mikilvægt. En ég hef ekki áhyggjur af faglega þættinum eða að styrkur til rannsókna á samgönguslysum muni lækka við samþykkt þessa frumvarps. Ég bendi þó á þá fyrirvara sem gerðir eru í nefndaráliti meiri hlutans eins og ég gerði við fyrri umræðu.