141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að hæstv. forseti hafi blandað saman frumvarpi um bókhald og ársreikninga því að skylt er skeggið hökunni. Þær breytingar sem hér eru til umfjöllunar af hálfu meiri hluta nefndarinnar varða það að atvinnuvegaráðuneytið féllst á að draga til baka tillögur sínar um að rýmka heimildir manna um að skila á erlendum tungumálum og fellst meiri hlutinn að sjálfsögðu á það eftir fram komnar athugasemdir frá Íslenskri málnefnd og frá menntamálaráðuneytinu sömuleiðis.

Í öðru lagi er kannski helst að nefna að hér er verið að tryggja gegnsæi í eignarhaldi á hlutafélögum eða félögum með takmarkaða ábyrgð — það eru auðvitað fleiri félög en hlutafélög sem eru með takmarkaðri ábyrgð — í því að þeim er skylt að skila, í fylgiskjali með ársreikningi, skrá með nöfnum og kennitölum þeirra sem eiga hlut í félaginu þannig að það liggi fyrir á hverjum tíma hverjir eiga hvað. Þetta eru síðan upplýsingar sem eru geymdar hjá fyrirtækjaskrá og upplýsingamiðlun sem er síðan eðlilegt að taki á síðari stigum enn frekari þróun og jafnvel að hagnýttir verði ýmsir tæknilegir möguleikar sem viðraðir hafa verið í umfjöllun nefndarinnar, ekki síst af hv. þm. Pétri H. Blöndal.