141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

umræða um 15. dagskrármál.

[18:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskaði eftir því bréflega í dag að 15. mál sem hér hefur verið tekið á dagskrá yrði tekið af dagskránni og umræðu um það frestað. Fyrir því liggja málefnalegar ástæður. Helstar eru ástæðurnar þær sem lesa má um í nefndaráliti sem dreift var í gær, að tveir fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni sem um málið fjallaði eru með fyrirvara. Hvorugur þeirra er hér til staðar til þess að gera grein fyrir þeim fyrirvörum.

Í öðru lagi er hér um að ræða síðari umræðu og endanlega umræðu um málið. Eins og ég sagði var nefndaráliti dreift í gær. Það er mjög óvanalegt að mál komist á dagskrá með þeim fyrirvara sem hér er. Það mátti enginn búast við því í sjálfu sér, þar á meðal ekki hæstv. innanríkisráðherra sem er í útlöndum. Hann blandaði sér verulega í umræðuna við fyrri umr. og vill gjarnan taka þátt í síðari umræðu um málið.

Í bréfi mínu sem formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs voru fleiri röksemdir til taldar fyrir þessari málefnalegu beiðni. Ég óska eftir því, herra forseti, að við þessari beiðni verði orðið og að 15. dagskrármálið verði tekið út af dagskrá þessa fundar og það sett á dagskrá síðar þegar hægt verður að ræða það með eðlilegum hætti.