141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég er framsögumaður þess nefndarálits sem hér um ræðir og er 15. mál á dagskrá fundarins. Álitið fjallar um tillögu til þingsályktunar um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og kemur frá allsherjar- og menntamálanefnd. Undir nefndarálitið rita ásamt mér sjálfri hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, sem er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Skúli Helgason, sem er með fyrirvara við málið, Ólafur Þór Gunnarsson, með fyrirvara, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Arndís Soffía Sigurðardóttir, með fyrirvara og Siv Friðleifsdóttir. Ég mun fara yfir fyrirvarana á eftir.

Þetta er í annað sinn sem þetta mál kemur til umfjöllunar þingsins. Nefndin afgreiddi málið í fyrra en þá komst það ekki á dagskrá þingsins. Ekki var hægt að taka málið á dagskrá út af ágreiningi, ekki síst innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að málið skuli loksins fá eðlilega þinglega meðferð nú við síðari umræðu þess á Alþingi þannig að alþingismönnum gefst kostur á að greiða atkvæða um þetta mikilvæga mál sem fjallar m.a. um að efla lögregluna í landinu. Það er best að draga það strax fram að þetta er auðvitað ekki í síðasta sinn sem hæstv. Alþingi, löggjafarsamkoman, kemur að málinu.

Í þingsályktunartillögunni felst að hæstv. innanríkisráðherra á að semja mál á grundvelli hennar þannig að frumvarp mun koma fyrir þingið sem felur í sér þrjár efnislegar umræður með aðkomu nefndar þar sem menn geta komið fram með ýmsar athugasemdir um málið. Það er því síður en svo þannig að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á Alþingi geti ekki haft frekari afskipti eða skoðanir á málinu.

Ég dreg ekki dul á að um málið eru skiptar skoðanir. Ég virði þær skoðanir þótt ég sé ekki sammála þeim öllum, þess vegna tókst að afgreiða málið úr nefndinni.

Mig langar að fara yfir nefndarálit okkar. Okkur bárust umsagnir m.a. frá Ákærendafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Persónuvernd.

Samkvæmt tillögunni er innanríkisráðherra falið að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veitir lögreglu sambærilegar heimildir og lögregla annarra norrænna ríkja hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við undirbúning slíkra heimilda til handa lögreglu ber að hafa í huga, og það er gríðarlega mikilvægt, félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar, þeirrar stjórnarskrár sem núverandi stjórnarmeirihluti vill fella úr gildi. Við miðum að sjálfsögðu við félagafrelsisákvæði hinnar gömlu og góðu gildandi stjórnarskrár með hinu mikilvæga félagafrelsisákvæði og rétti fólks til að taka þátt í starfsemi frjálsra félagasamtaka sem ekki ógna almannaheill.

Nefndin vekur athygli á því að þingsályktunartillaga sama efnis var flutt á 139. löggjafarþingi. Ég ætla aðeins að fara yfir hana. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er því miður staðreynd að skipulögð glæpastarfsemi hefur aukist hérlendis og eins og bent er á í einni umsagna um málið er ástæðulaust að ætla að sú þróun gangi til baka. Benda má á að nýverið lagði“ — þetta var sem sagt í fyrra — „allsherjar- og menntamálanefnd fram og afgreiddi síðar til 2. umr. í þinginu tillögu til þingsályktunar um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi (717. mál). Ljóst er að lagaumgjörðin um slíkar heimildir þarf að vera skýr og er sömuleiðis brýnt að tryggja eftirlit með beitingu heimildanna. Meiri hlutinn telur“ — þetta er vel að merkja meiri hlutinn frá því í fyrra sem var aðeins öðruvísi — „mikilvægt að farið verði gaumgæfilega yfir lagaumgjörðina að þessu leyti annars staðar á Norðurlöndum.“

Því ákváðu meiri hlutinn og þingið að fela ráðherra að fara yfir sambærilega lagaumgjörð á Norðurlöndunum. Efnislega er þetta sama tillagan og vill nefndin, sem nú er starfandi og myndar þennan meiri hluta, sérstaklega árétta þessi sjónarmið.

Ég undirstrika að þrír hv. þingmenn skrifa undir álitið með fyrirvara, eins og ég gat um áðan. Hv. þm. Skúli Helgason skrifaði undir álitið með fyrirvara um að heimildir lögreglu til að beita fyrirbyggjandi aðgerðum eigi ávallt að skýra þröngt og skuli ekki beita gegn frjálsum félagasamtökum sem ekki stunda skipulagða glæpastarfsemi og að slíkar heimildir eigi ekki að beinast að starfsemi frjálsra félagasamtaka.

Ég get, sem framsögumaður þessa nefndarálits, tekið efnislega undir það sjónarmið hv. þingmanns.

Hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson og Arndís Soffía Sigurðardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara sem lýtur að því að með tillögunni feli þingið innanríkisráðherra að kanna lagaumhverfi hinnar almennu lögreglu á Norðurlöndunum til að hafa sem fyrirmynd að lagafrumvarpi um starfsemi lögreglunnar, ekki síst með tilliti til svokallaðrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Þau segja að með tillögunni sé á engan hátt verið að hvetja til þess að á Íslandi verði stofnuð einhvers konar öryggis-, njósna-, eða leyniþjónusta, hvað svo sem líði lagasetningu stærri frændþjóða okkar um slíkar stofnanir.

Svo mörg voru þau orð um fyrirvara hv. þingmanna Ólafs Þórs Gunnarssonar og Arndísar Soffíu Sigurðardóttur.

Hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ég þakka enn fyrir það að málið sé komið á dagskrá og að þinginu veitist tækifæri til að afgreiða það. Ég tel mikilvægt að hæstv. innanríkisráðherra, sem verður hugsanlega og vonandi annar eftir kosningar en núna, fari mjög gaumgæfilega yfir lagaumhverfi á Norðurlöndunum. Eins er mikilvægt að hann fari yfir samstarf okkar á þessu sviði, sem er mjög mikið, við Scotland Yard, FBI og nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Það er mikilvægt að við Norðurlandaþjóðirnar séum með svipað umhverfi hvað þetta varðar til þess að lögregla okkar geti stuðlað að því sem fram kom í þingsályktunartillögu sem samþykkt var síðastliðið vor og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var 1. flutningsmaður að. Þar var lögð áhersla á að efla hina almennu lögreglu samhliða því að styrkja rannsóknarlögregluna.

Við munum vonandi ræða skýrslu um löggæsluáætlun þegar við skilum skýrslu sem þingflokkarnir báðu um að gerð yrði um þetta efni. Sú skýrsla mun verða afar hjálpleg fyrir nefndarálitið og það mál sem við ræðum hér.

Að svo búnu mælist ég til þess að þingsályktunartillagan komi til afgreiðslu á þinginu þar sem hún verður vonandi samþykkt.