141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur á því að tveir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru á nefndarálitinu. Þeir eru þar með fyrirvara en þeir eru á nefndarálitinu. Ef við getum ekki rætt málefni sem heyra til að mynda undir hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson, sem er yfir innanríkismálum, vegna þess að hann er í útlöndum þá værum við ekki að tala um nokkurn skapaðan hlut á því málasviði ef við ættum alltaf að miða við það.

Nefndin afgreiddi málið og búið er að setja það á dagskrá. Ég held að það sé rétt að við förum í málefnalega umræðu um þetta mikilvæga mál sem ég tel brýnt að Alþingi veitist kostur á að afgreiða á morgun.