141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla mála fram að þinglokum.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þingmann að minna mig á að skammt sé eftir af þinginu. Ég fylgist vel með dagatalinu og því hversu margir dagar eru eftir af þinginu og er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þá beri að nýta mjög vel. Ég verð að segja eins og er að mér finnst við ekki hafa nýtt þingvikuna sem er að líða nægjanlega vel þar sem oft og tíðum hefur verið hætt snemma að degi til. Það hefði verið hægt að nýta þann tíma til að fara í þau mörgu mál sem eru óafgreidd úr nefndum og þau eru vissulega mörg. Það eru mál sem við þurfum að afgreiða sem snerta til dæmis atvinnuuppbyggingu á Bakka, umhverfismál, lífskjör almennings o.s.frv. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum að nýta tímann eins vel og við getum og ekki skal standa á mér að gera það. Við ættum kannski að fara yfir þá daga sem eftir eru, skoða hvernig við nýtum þá og hvaða mál við eigum að setja í forgang.

Hv. þingmaður nefnir skuldastöðu heimilanna. Nú veit hann að mjög mikið hefur verið gert að því er varðar aðgerðir fyrir skuldug heimili. Það er alltaf hægt að gera betur í því efni og við höfum verið að skoða þau mál í okkar hópi, m.a. þær tillögur sem framsóknarmenn hafa lagt fram. Það er svolítið erfitt að átta sig á þeim varðandi skuldir heimilanna vegna þess að þau biðja um útreikninga á því sem mér er sagt að sé ekki hægt að reikna út, það vantar allar forsendur og talnagrunn til þess að það sé hægt. En ég er alveg tilbúin að setjast yfir það og skoða hvernig við getum nýtt tímann vel. Formaður míns flokks hefur það mál með höndum núna og við ræðum saman og sjáum hvernig við getum nýtt tímann sem best. Það er af nógu að taka. Við erum auk stjórnarskrárinnar að klára fjölda mála sem liggja fyrir, eru ýmist í nefndum eða eru að koma inn í þingið.