141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

lögmæti verðtryggingar á neytendalánum.

[10:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki heyrt að Íbúðalánasjóður hafi óskað eftir frávísun og þekki ekki nákvæmlega hvernig málið hefur gengið fyrir sig hjá dómstólum, en ég get tekið undir með hv. þingmanni að ég held að það sé mjög mikilvægt, eftir það sem á undan hefur gengið síðustu daga, að menn túlki betur lagarammann um verðtrygginguna og reyni að finna út úr því hvernig hún eigi að vera, hvernig útreikningar eigi að vera og hvað sé löglegt og hvað ólöglegt í því. Það er ýmislegt sem hefur komið fram á síðustu dögum sem kallar á að þetta verði skoðað betur. Því miður hefur sýnt sig í öllu þessu ferli okkar í sambandi við greiðslu- og skuldavanda og fleira að allar breytingar aftur í tímann hafa síðan verið háðar afgreiðslunni hjá dómstólum. Ég held því að mikilvægt sé að menn reyni að klára þau mál sem þangað hafa komið.