141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

fundur með sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi vestra.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður lýsir hér, að við áttum fund fyrir nokkrum mánuðum með fulltrúum Norðurlands vestra þar sem þeir fóru yfir stöðuna í kjördæminu og þær áherslur sem þeir lögðu á í úrbótum og aðgerðum sem þyrfti að fara í. Vissulega tókum við vel á móti þeim og hlustuðum á þeirra mál. Þeir sendu okkur síðan skriflega tillögur sínar, eins og hv. þingmaður nefnir, sem margar hverjar voru kostnaðarsamar og ég ákvað að senda til allra viðkomandi ráðuneyta til þess að heyra viðhorf þeirra í þessu máli. Það tók nokkurn tíma og liggur fyrir hvað ráðuneytin töldu að þyrfti að gera að því er varðar þetta kjördæmi. Ég veit ekki betur en að þeim hafi verið sent þetta frá ráðuneytunum.

Nú er það einu sinni svo að ríkisstjórnin, þó að hún sé öll af vilja gerð, getur ekki orðið við öllum óskum sem koma frá sveitarfélögunum. Ég veit að hv. þingmaður man að þessi ríkisstjórn hefur gert nokkuð sem engin ríkisstjórn hefur gert áður, þ.e. heimsótt öll kjördæmin í landinu og haldið fundi með sveitarstjórnarmönnum, hlustað á viðhorf þeirra og það sem þeir hafa til málanna að leggja að því er varðar sveitarfélög þeirra. Fundirnir hafa verið árangursríkir og margt komið út úr þeim og mikið af fjármunum lagt til þessara kjördæma í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Ég vil líka minna á sóknaráætlanir landshluta, sem er verkefni sem þessi ríkisstjórn fór af stað með, þar sem farnar eru nýjar brautir í samskiptum við sveitarfélögin og sveitarfélögin koma að og hafa áhrif á forgang fjármuna sem lagðir eru í kjördæmi þeirra. Það hefur verið gert í Norðurlandi vestra sem og í öðrum kjördæmum og nýlega var úthlutað, (Forseti hringir.) að því er ég best veit, um 400 millj. kr. í öll þessi kjördæmi. Ég veit ekki annað en að sveitarstjórnir um land allt séu mjög ánægðar (Forseti hringir.) með þessi samskipti og samvinnu við sveitarfélögin þó að það sé alltaf svo að við getum ekki orðið við öllum óskum og beiðnum sem koma frá sveitarfélögunum.