141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla þingmála.

[11:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði réttilega að mál yrðu afgreidd úr nefndum og að mati formanna væri það þannig að …

(Forseti (ÁRJ): Ekki áframhald þeirrar umræðu sem lokið er undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir.)

Nei, ég mun koma að því að þetta tengist dagskrá þingsins, frú forseti. Ég vil taka þetta fyrir því að 15. mál á dagskrá hér í gær var mál sem ég er talsmaður fyrir sem eru forvirkar rannsóknarheimildir, mál sem var einmitt afgreitt úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd með atkvæðum frá fólki úr öllum flokkum, Vinstri grænum með fyrirvara.

Ég náði að mæla fyrir þessu máli í gær en síðan var það tekið út af dagskrá einhverra hluta vegna. Menn báru það meðal annars fyrir sig að hæstv. innanríkisráðherra væri ekki í salnum. Það hefur margoft komið fyrir að staðgenglar hafa setið fyrir hönd ráðherra í salnum og reynt að svara spurningum. Ég rak augun í það í dag að þetta mál, um forvirkar rannsóknarheimildir, er ekki á dagskrá þingsins í dag. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta hvenær málið komi aftur á dagskrá því að það var afgreitt úr nefnd, eitt af þeim málum sem var afgreitt úr nefnd, og ég tel eðlilegt að þingið fái tækifæri til að ræða það og taka það síðan til afgreiðslu.