141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

afgreiðsla þingmála.

[11:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Í máli hæstv. forsætisráðherra hér í fyrirspurnatíma kom fram að fjölmörg mál lægju fyrir þinginu sem hægt væri að afgreiða. Hún nefndi sérstaklega tvö mál, mál er varðar fjárfestingu á Bakka og mál er varðar gjaldeyrishöft. Ég veit ekki til þess að nokkurt mál sé fyrirliggjandi í þinginu sem snertir gjaldeyrishöft og mál varðandi Bakka er ekki komið inn í þingið eins og allir vita.

Ég heyrði síðan í morgun viðtal við væntanlegan formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem rætt var um frumvarp um endurskoðun á almannatryggingum. Hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir gaf í skyn að það mál yrði klárað fyrir þinglok.

Frú forseti. Þessi mál eru ekki komin til þingsins. Getur forseti upplýst þingheim um það hvort til standi að ryðja dagskrá þingsins til að ljúka þessum málum og hvort hún viti til þess að þau séu væntanleg inn í þingið?