141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[11:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú ræðum við um ársreikninga. Gerðar eru tilraunir til að upplýsa um eigendur hlutafélaga. Ég mundi styðja það, væri það til einhverra nota. Sett er upp heilmikil skrá hjá ríkisskattstjóra eða hlutafélagaskrá en ekki er sýnt hvernig hægt er að nota hana og ekki er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið, sem gæti notað það og hefur heimild til þess, noti það. Ég get því ekki stutt tillöguna. Ég get heldur ekki verið á móti henni því að ég er hlynntur því að þetta sé upplýst. Ekki er heldur gætt að persónuverndarsjónarmiðum sem gæta þyrfti að til að upplýsa ekki um einstaklinga sem eiga í hlutafélögum. Mér finnst málið því ekki vera nægilega útrætt. En þetta er tilraun í rétta átt og hefði átt að ræða tillöguna miklu betur í nefndinni og finna á þessu sem skynsamlegasta lausn.