141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

ársreikningar.

94. mál
[11:17]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna breytingartillögu hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem tryggir að fyrirtæki hér á landi þurfa að upplýsa um eigendur án þess að sú kvöð sé íþyngjandi. En breytingartillagan gengur ekki nógu langt og þar af leiðandi legg ég fram breytingartillögu sem skyldar fyrirtæki til að upplýsa um raunverulega eigendur fyrirtækja. Raunverulegir eigendur eru þá einstaklingar en ekki eignarhaldsfélög með aðsetur í skattaskjólum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ræðir nú sambærilega lagasetningu til að koma í veg fyrir víðtækt skattsvindl, spillingu og krosseignatengsl. Það hefur nefnilega komið í ljós að langflest fyrirtæki í Evrópu hafa lögheimili á aflandslandi og greiða þar af leiðandi ekki tekjuskatt í því landi sem þau eru með starfsemi í. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Notum þetta einstaka tækifæri til að taka á aflandsfélögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)